Barack Obama, Bandaríkjaforseti, ávarpaði loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna við upphaf leiðtogafundarins á þessum fyrsta degi ráðstefnunnar í París. Hann lagði áherslu á að góð niðurstaða ráðstefnunnar sé það eina sem bjargar framtíð mannkynsins. Leiðtogar 150 ríkja heims koma nú saman í París. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er fulltrúi Íslands.
„Getum við ímyndað okkur betri umbun en það að börnin okkar og kynslóðirnar sem koma á eftir okkur líti til þessa fundar sem bjargvætt mannkynsins,“ sagði Obama í lok ræðu sinnar. „Látum það ekki framhjá okkur fara, næsta kynslóð er að fylgjast með hvað við gerum.“ Ræðuna má hlusta á í heild sinni hér að neðan. Einnig er beint streymi frá leiðtogafundinum að finna hér að neðan.
Leiðtogafundur 150 fulltrúa ríkja sem sækja ráðstefnunna er fyrsti dagskrárliður loftslagsráðstefnunnar COP21 í París. Er það gert til að gefa umræðum á fundinum meira vægi en ella. Í Kaupmannahöfn fyrir sex árum, þegar viðræður runnu út í sandinn, var leiðtogafundurinn skipulagður í lok ráðstefnunnar. Þegar leiðtogarnir komu loks saman höfðu brotalamirnar þegar gert vart við sig.
Bandaríkin og Kína menga meira en nokkurt annað land í heiminum. Obama gerði það að umfjöllunarefni í ræðu sinni og lagði áherslu á að mestu mengarar heimsins þyrftu að bregðast við svo lítil lönd, sem munu fyrr finna fyrir áhrifum loftslagsbreytinga en voldugustu ríki heims, hverfi ekki í hafið. „Þessi litlu eyríki hafa ekki tækifæri til að draga nóg úr mengun til að bjarga sjálfum sér,“ sagði Obama.
Ræða Barack Obama:
Ráðstefnan í beinni: