Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, telur íslenska ríkið halda aftur af Reykjavíkurborg þegar kemur að skipulagsmálum og loftslagsmálum. „Ef við fylgjum ekki þéttingu byggðar þétt eftir, þá munum við ekki ná þeim árangri sem við þurfum í [loftslagsmálum],“ segir Dagur í samtali við þáttinn Þukl í Hlaðvarpi Kjarnans. Þétting byggðar er að mati Dags helmingur þeirra aðgerða sem borgin getur gripið til í loftslagsmálum.
Spurður hvort hann telji ríkið standa borginni fyrir þrifum í þessum málum svarar Dagur: „Já, hvað lokun þriðju brautarinnar snertir en að öðru leyti þá vonast ég eftir nánu og góðu samstarfi í loftslagsmálunum því þar þurfa allir að vinna saman.“
Eins og Kjarninn sagði frá 19. nóvember þá hyggst Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, ekki loka þriðju flugbrautinni á Reykjavíkurflugvelli og segir ákvörðun um slíka lokun ekki verða tekna án fullvissu um að lokun brautarinnar verði ekki tekin án fullvissu um að lokun hennar komi ekki niður á öryggi flugvallarins.
„Það sem gengið hefur verið útfrá, árum og raunar áratugum saman, er að þriðja brautin víki,“ segir Dagur. „Um þetta hafa verið gerðir samningar við eina fjóra samgönguráðherra; Sturlu Böðvarsson, Kristján Möller, Ögmund Jónasson og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Það kemur svo í ljós að ríkið ætlar sér ekki að standa við samninga um að loka brautinni, eða segir það allavega. Þannig að við erum á leið í dómsmál til að knýja á um þetta.“
Dagur telur ýmislegt liggja þar að veði og tekur dæmi um „prinsippið“ um að það eigi að standa við samninga. „Það þýðir lítið fyrir okkur að gera nýjan og nýjan samning ef það er aldrei staðið við það sem þegar er búið að samþykkja,“ segir hann. Í öðru lagi nefnir hann bygginarverkefnin sem þegar eru hafin við enda þriðju flugbrautarinnar. „Bak við þetta eru stærri hlutir eins og sýnir á það hvernig hagkvæm, góð lífsgæðaborg þróast innávið. Borgin þarf að standa í lappirnar og fylgja þeirri stefnumörkun fast eftir.“
Dagur er í ítarlegu viðtali í þættinum Þukl í Hlaðvarpi Kjarnans. Hægt er að hlusta á þáttinn hér að neðan.