Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur staðfest að formleg rannsókn sé hafin á skattasamningum milli Lúxemborg og alþjóðlega skyndibitarisans McDonald´s. Rannsóknin snýr að því hvort samkomulagið sé svo hagstætt McDonald´s að í því felist ríkisstyrkur frá Lúxemborg.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skattamál McDonald´s í Lúxemborg eru til rannsóknar. Fyrir tveimur árum rannsökuðu frönsk yfirvöld þau og fyrr á þessu ári sendi hópur verkalýðsfélaga frá sér mjög gagnrýna skýrslu um skattamál McDonald´s, sem er stærsta skyndibitakeðja Evrópu.
Samkvæmt frétt the Guardian um málið kom fram í skýrslunni að félagið McD Europe Franchising Sarl, sem er staðsett í Lúxemborg og tilheyrir McDonald´s samstæðunni, hafi fengið um 834 milljónir evra, 117 milljarða króna, í þóknanir árið 2013 þrátt fyrir að vera einungis með þrettán starfsmenn. Í skýrslunni var einnig bent á að skipulag samstæðu McDonald´s í Evrópu hafi verið breytt árið 2009 og höfuðstöðvar þess færðar frá Bretlandi til Genf.