Síminn og Vodafone munu í næstu viku opna fyrir svokallað Pay-Per-View af knattspyrnuleikjum sem sýndir eru á sjónvarpsstöðum 365 í Sjónvarpi Símans og Vodafone. Sjónvarpi Fyrsti viðburðurinn verður Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu. Hjá Símanum verður strax í kjölfarið hægt að kaupa staka leiki í enska boltanum á þennan hátt. Frá þessu var greint á bloggi Símans í gær og á bloggi Vodafone.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans er um samstarf milli Símans og Vodafone og 365 að ræða. Fyrirtækin munu kaupa þá leiki sem þau munu sýna í heildsölu og í boði verða þrjú mismunandi verð. Allir leikir í enska boltanum verða aðgengilegir með þessum hætti í Sjónvarpi Símans.
Tókust á um sýningaréttinn á Enska boltanum
Í síðustu viku var greint frá því að 365 hefði náð samningum við ensku úrvaldsdeildina um að sýna áfram frá enska boltanum á sportrásum sínum. Nýi samningurinn tekur gildi næsta sumar og gildir í þrjú ár. Ekki hefur verið upplýst hvað 365 greiddi fyrir nýja samninginn. Síminn bauð einnig í sjónvarpsréttinn.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans verður ekki sýnt frá jafn mörgum leikjum í ensku úrvaldsdeildinni hérlendis á næstu tímabilum og hefur verið gert á undanförnum árum. Nú er sýnt frá 380 leikjum á ári en þeim verður fækkað í 200. Ekki verður sýnt beint frá öllum leikjum sem leiknir eru síðdegis á laugardögum heldur verður einn valinn leikur sýndur. Aðrir leikir verða sýndir í óbeinni dagskrá síðar um daginn. Auk þess munu enskir þulir ekki lengur fylgja með leikjum líkt og hefur verið til þessa.
365 stór viðskiptavinur hjá Símanum
Þrátt fyrir að Síminn og 365 eigi í samkeppni víða þá eiga þau einnig í ýmis konar samstarfi. Sjónvarpsþjónusta 365 er t.d. útveguð í gegnum kerfi Símans og Síminn dreifir einnig sjónvarpsstöðvum 365 ásamt Vodafone. Þá er GSM-þjónusta 365 á dreifikerfi Símans.
365 er því einn af stærstu viðskiptavinum Símans samhliða því að vera einn helsti keppinautur fyrirtækisins á fjölmiðla- og fjarskiptamarkaði.
Síminn hefur verið virkur þátttakandi á fjölmiðlamarkaði frá því að fyrirtækið fékk að sameinast dótturfyrirtækinu SkjáEinum fyrr á þessu ári. Síðan þá hefur línuleg sjónvarpsdagskrá SkjásEins verið opnuð og töluvert verið fjárfest í henni, meðal annars í þættinum The Voice Ísland og með kaupum á sýningarréttinum á Evrópukeppninni í knattspyrnu, sem fram fer í Frakklandi næsta sumar.
Munu sýna frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar
Í bloggi Símans í gær kom fram að það verða ekki bara íþróttaviðburðir sem sýndir verða í Pay Per View í Sjónvarpi Símans. Til stendur að selja aðgang að einstökum viðburðum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborgarsal Hörpu til viðskiptavina um allt land.
„En fjörið og nýjungarnar stoppa ekki þar því einnig eru hafnar tilraunaútsendingar með næstu kynslóð háskerpusjónvarps, svokallað UHD (Ultra HD) sem margir þekkja sem 4K. Þessar tilraunar lofa mjög góðu og munum við bjóða lokuðum hópi viðskiptavina að koma inn í tilraunaútsendingarnar innan nokkura mánaða. Efni sem aðgengilegt er í 4K upplausn er alltaf að aukast ásamt því að sjónvarpstæki sem styðja 4K eru orðin algengari á heimilum landsmanna og því tímabært að stíga þetta skref nú.Og að lokum munum við strax eftir helgina hefja opnar prófanir fyrir viðskiptavini okkar á nýrri útgáfu af Sjónvarp Símans appinu sem virkar á tölvum, bæði Windows og OS X en hingað til hefur appið aðeins verið fáanlegt fyrir snjallsíma og spjaldtölvur með Android og iOS stýrikerfi,“ segir í blogginu.
Í bloggi Vodafone segir að þjónustan sé samstarfsverkefni Vodafone og 365 og að stefnt sé að því að bjóða enn fleiri viðburði með þessu sniði á næstunni. Þá sé ýmislegt annað í þróun hjá Vodafone Sjónvarpi. „Til að mynda hafa prófanir hafist á 4K ofurháskerpuútsendingum og hafa þær farið vel af stað. Slíkar útsendingar eru talsvert gagnafrekari en hefðbundnar háskerpuútsendingar og því henta ljósleiðaratengingar Vodafone sérstaklega vel fyrir slíka þjónustu."