Fallið var frá 13 milljóna króna niðurskurði á framlagi til umboðsmanns Alþingis þegar fjárlög voru afgreidd frá Alþingi í gær. Ekki var fallist á breytingartillögu um að auka framlag til embættisins um 15 milljónir króna til að það gæti með betri hætti sinnt frumkvæðisrannsóknum.
Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar segir:„Meiri hlutinn vekur athygli á því að þar sem dregin var til baka við 2. umræðu tillaga um 13 millj. kr. lækkun fjárveitinga til umboðsmanns Alþingis vegna lægri húsnæðiskostnaðar, þá eykst fjárhagsrammi embættisins í reynd að raungildi frá fyrra ári. Með þessu skapast enn meira svigrúm til frumkvæðisrannsókna af hálfu embættisins. Á næsta ári þarf að ganga formlega frá fjárhagslegum samskiptum milli embættisins og Alþingis."
Þverpólitísk sátt um hærri framlög skilaði engu
Kjarninn greindi frá því 10. desember að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis teldi það grundvallaratriði að umboðsmanni Alþingis verði gert kleift að starfa faglega og að embættið fái nægilegt fjármagn til að sinna lögbundnum verkefnum sínum með þeim hætti sem hann telur fullnægjandi.
Nefndin taldi einnig að sú forgangsröðun sem umboðsmaður sýndi í lekamálinu, og opinber birting á bréfum til ráðherra, sem forystumenn ríkisstjórnarinnar hnýttu í við meðferð málsins, hafi verið eðlilegt verklag. Hún taldi þess vegna það vera grundvallaratriði að umboðsmanni yrði tryggð 15 milljóna króna aukafjárveiting til að geta ráðist í frumkvæðismál sem séu „mikilvægur þáttur í starfi umboðsmanns og því hlutverki sem hann gegnir í að auka réttaröryggi borgaranna.“
Þetta kom fram í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2014, sem birt var fyrr í mánuðinum. Athygli vakti að einhugur var í nefndinni. Allir nefndarmenn, sem koma úr öllum flokkum sem sæti eiga á Alþingi, skrifuðu undir álitið. Líka þeir sem tilheyra stjórnarflokkunum tveimur. Þrátt fyrir þann einhug náðist ekki samstaða um það í fjárlaganefnd að auka framlög til umboðsmanns um þessar 15 milljónir króna.
Tryggvi Gunnarsson er umboðsmaður Alþingis. Hann var endurkjörinn í starfið í desember 2011 til fjögurra ára frá 1. janúar 2012. Skipanatími hans rennur því út um næstu áramót og kjósa þarf um endurkjör hans, eða nýjan umboðsmann, áður en að sá tími er liðinn. Tryggvi sat m.a. í þriggja manna rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið sem skilaði skýrslu sinni í apríl 2010.
Lekamálið, Fiskistofa og Seðlabankinn
Umboðsmaður Alþingis hefur verið töluvert í sviðsljósinu á þessu ári. Í janúar birti hann niðurstöðu frumkvæðisathugunar sinnar á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, og Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, vegna rannsóknar lekamálsins svokallaða. Þar segir hann að ráðherrann, sem þá hafði þegar sagt af sér embættið, hafi gengið langt út fyrir valdsvið sitt í málinu. Hún hafi haft ítrekuð og mikil afskipti af rannsókn lekamálsins, sem snérist um leka þáverandi aðstoðarmanns hennar, Gísla Freys Valdórssonar, á upplýsingum um um hælisleitendur til valinna fjölmiðla. Gísli Freyr hlaut átta mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir lekann í nóvember 2014.
Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér embætti innanríkisráðherra vegna lekamálsins seint á árinu 2014. Hún baðst afsökunnar á framgöngu sinni í málinu.
Í apríl birti umboðsmaður álit í tilefni af kvörtun starfsmanna Fiskistofu til embættisins vegna ákvörðunar Sigurðar Inga Jóhanssonar sjávarútvegsráðherra um að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar. Í áliti umboðsmanns segir að yfirlýsingar og bréf Sigurðar Inga til starfsmanna Fiskistofu vegna flutningsins hafi ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.
Í byrjun sendi umboðsmaður Alþingis svo bréf til Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, bankaráði Seðlabanka Íslands, Má Guðmundssyni seðlabankastjóra og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis vegna athugunar sem hann hafði unnið á síðustu árum vegna atriða tengdum athugunum og rannsóknum Seðlabanka Íslands vegna gruns um brot á reglum um gjaldeyrishöft. Í bréfi hans kemur m.a. fram að Seðlabanki Íslands hafði ekki skýra lagaheimild til að flytja verkefni við umsýslu og sölu eigna til einkahlutafélags í eigu bankans. Umrætt einkahlutafélag, Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ), hefur fengið til sín allar þær eignir og kröfur sem Seðlabankanum hefur áskotnast vegna hrunsins. Um er að ræða eignir, meðal annars hlutir í fyrirtækjum og fasteignir, og kröfur upp á hundruði milljarða króna. ESÍ hefur á undanförnum árum selt margar þeirra eigna sem félaginu áskotnaðist. Í bréfinu gagnrýnir umboðsmaður einnig framkvæmd gjaldeyrisreglna seðlabankans.
Bankaráð Seðlabanka Íslands ákvað á grundvelli þeirrar niðurstöður að láta gera athugun á þessum málum.