Nýjasta stórmynd leikstjórans Quentin Tarantino, The Hateful Eight, verður frumsýnd í kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum á morgun, föstudag. Þrátt fyrir það er þegar búið að leka myndinni í góðum gæðum á internetið og hægt er að horfa á hana eða niðurhala á flestum ólöglegum streymi- eða niðurhalssíðum netheima.
Það er vert að velta fyrir sér hvernig það getur gerst að kvikmyndir leka áður en þær eru einu sinni frumsýndar? Hvaðan kemur eintakið af myndinni sem hlaðið er upp á netið? Svarið er einfalt: það er verðlaunahátíðartíð.
Í aðdraganda stærstu verðlaunahátíða kvikmyndaheimsins (BAFTA, Golden Globe og auðvitað Óskarsins) þá senda kvikmyndaverin þær myndir sem þau telja líklegust til afreka til fjölda aðila sem hafa áhrif á val á tilnefningum til ofangreindra verðlauna. Á undanförnum árum hafa þessar útsendingar án undantekninga leitt til þess að allar helstu kvikmyndir undanfarins árs, og jafnvel myndir sem enn á eftir að frumsýna, verða skyndilega aðgengilegar á netinu í góðum gæðum.
Á síðu Business Insider er greint frá því að The Hateful Eight hafi fyrst verið deilt á netinu af hóp sem kallar sig Hive-CM8, en segir að The Hollywood Reporter telji sig hafa borið kennsl á þann sem átti eintakið sem lak. Sá er forstjóri kvikmyndaframleiðslufyrirtækisins Alcon Entertainment, og heitir Andrew Kosove.
Samkvæmt frásögn Business Insider liggur ekkert fyrir hvort Kosove sé ábyrgur fyrir lekanum né að hann hafi í raun gert nokkuð rangt. Raunar er talið að hann sé saklaust fórnarlamb í málinu. Hann sagði við Hollywood Reporter að hann hefði aldrei séð diskinn með myndinni og aldrei fengið hann í hendur. Kosove sagði að fyrirtæki sitt ætlaði ekki bara að vinna náið með bandarísku alríkislögreglunni (FBI) við rannsókn málsins, heldur að framkvæma sína eigin innanhúsrannsókn líka.
Rannsókn FBI beinist að því að einhver hafi komist yfir eintak af DVD-diski með mynd Tarantino sem ætluð var Kosove áður en hún skilaði sér á áfangastað. Hvort sá sem hafi stolið henni sé starfsmaður Alcon, dreifingaraðila myndarinnar The Weinstein Company eða bara einhver allt annar liggur enn ekki fyrir. Ljóst er þó að skaðinn er skeður og fjárhagslegt tjón framleiðenda myndarinnar verður gríðarlegt.
Það var í raun ekki flókið ferli að rekja hvaða eintaki hefði verið lekið. Þegar eintök af kvikmyndum sem vonast er til að hljóti náð fyrir valnefndum stærstu verðlaunahátíðanna þá er hvert eintak merkt með sérstöku vatnsmerki. Þannig er samstundis hægt að átta sig á hvaða eintaki var lekið. Hóparnir sem stunda það að stela kvikmyndum sem þessum eru hins vegar orðnir nokkuð sjóaðir í að fjarlægja þessi vatnsmerki. Í þessu tilfelli hefur þeim ekki tekist að gera það nægjanlega vel.
Yfirvofandi rannsókn FBI virðist ekki ætla að hræða Hive-CM8 frá því að halda ótrauður áfram starfsemi sinni. Hópurinn segist vera með undir höndum um 40 myndir sem hann eigi eftir að leka út á netið. Fyrst verði þær myndir sem mest eftirvænting hefur verið eftir, eins og The Hateful Eight, lekið út og svo verði hinum mjatlað út.