Samkomulag stjórnvalda við kröfuhafa föllnu bankanna um greiðslu stöðugleikaframlags og undanþágu frá fjármagnshöftum til að klára slit búa Glitnis, Landsbankans og Kaupþings eru viðskipti ársins 2015 að mati dómnefndar Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti. Frá þessu er greint í blaðinu í dag. Samkomulagið er liður í áætlun stjórnavalda um losun hafta og samkvæmt því fær ríkissjóður um tæpa 340 milljarða króna greidda í stöðugleikaframlag frá föllnu bönkunum gegn því að heimila útgreiðsla annarra eigna til kröfuhafa. Auk þess á enn eftir að ráðast í útboð á aflandskrónum sem mun hækka ágóða ríkisins af áætluninni.
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um málið á árinu.
Símaviðskiptin verstu viðskiptin
Í Markaðnum er einnig greint frá því að dómnefnd hafi valið sölu Arion banka á tíu prósent hlut í Símanum til valinna aðila á undirverði í aðdraganda skráningar félagsins á markað í október hafi verið verstu viðskipti ársins. Að mati dómnefndar var salan ekki til þess að auk tiltrú almennings á hlutabréfamarkaði heldur hafi hún skapað óþarfa tortryggni og til þess fallin að rýra viðskiptavild bankans. Tveir hópar fengu að kaupa hlut á lægra verði en stóð til boða í útboði á bréfum í Símanum. Annar hópurinn var samansettur af stjórnendur Símans en hinn var valinn hópur vildarviðskiptavina Arion banka. Arion banki hefur viðurkennt að salan til vildarviðskiptavinanna hafi verið mistök, en stendur að fullu með sölunni til stjórnendanna og meðfjárfesta þeirra.
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um málið á árinu.
Árni Oddur viðskiptamaður ársins
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, var valinn viðskiptamaður ársins í Markaðnum en mikill viðsnúningur hefur orðið í rekstri fyrirtækisins á undanförnum misserum. Hann hafði hlotið sömu nafnbót hjá Frjálsri verslun deginum áður.
Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW, varð í öðru sæti og forystumenn ríkisstjórnarinnar, þeir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, í því þriðja fyrir samkomulag sitt um losun hafta.