Bankasýsla ríkisins stefnir enn að því að skila Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, tillögum um sölumeðferð á 30 prósent hlut eignarhlut ríkisins í Landsbankanum fyrir 31. janúar næstkomandi. Þetta segir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, í samtali við Kjarnann. Stöðuskýrsla um hvar málið sé statt er væntanleg innan skamms.
Aðspurður um hvort þær tillögur verði gerðar opinberar segir Jón Gunnar að hann muni leggja það til að svo verði.
Samkvæmt fjárlögum er búist við að 71 milljarður króna fáist fyrir söluna á hlutnum í Landsbankanum. Gangi þau áform eftir, eða ef verðmiðinn verður hærri, mun salan vera stærsta einkavæðing Íslandssögunnar.
Sendu bréf í september
Forstjóri og stjórnarformaður Bankasýslu ríksins sendu fjármála- og efnahagsráðherra bréf í september í fyrra þess efnis að stofnunin ætlaði að skila af sér tillögu til ráðherra, um sölumeðferð á 30 prósent eignarhlut ríkisins í Landsbankanum, fyrir 31. janúar 2016.
Í bréfi þeirra Jóns G. Jónssonar, forstjóra Bankasýslunnar, og Lárusar L. Blöndal, stjórnarformanns hennar, sagði að Bankasýslan hafi kynnt sér áform um sölu á allt að 30 prósent eignarhlut í Landsbankanum í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 sem þá hafði nýlega verið lagt fram. Stofnunin hefði þegar hafið nauðsynlega undirbúningsvinnu og áætlaði að skila formlegri tillögu til ráðherra, í samræmi við lög um sölumeðferð eignarhluta ríksins í fjármálafyrirtækjum, fyrir 31. janúar næstkomandi.
Jón Gunnar staðfestir að skila eigi tillögunni fyrir þá dagsetningu.
Bankasýslan verður ekki lögð niður
Kjarninn greindi frá því fyrr í dag að fjármála- og efnahagsráðherra hefði ekki uppi áform að svo komnu máli að leggja frumvarp um niðurlagningu Bankasýslu ríkisins fram að nýju. Bjarni lagði frumvarp sem fól slíka niðurlagningu í sér 1. apríl 2015 og samkvæmt frumvarpi til fjárlaga þessa árs sem lagt var fram í september í fyrra var ekki gert ráð fyrir neinum fjármunum í rekstur Bankasýslunnar.
Þegar fjárlög voru afgreidd í desember var hins vegar búið að þrefalda þá upphæð stofnun fær á í ár frá því sem rann til hennar úr ríkissjóði árið 2015. Í stað þess að loka Bankasýslunni verður hún ein áhrifamesta stofnun landsins í nánustu framtíð. Hún heldur á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum, er að undirbúa sölu á 30 prósent hlut í Landsbankanum sem fyrirhuguð er í ár, og mun taka á móti Íslandsbanka þegar kröfuhafar Glitnis afhenda ríkinu hann á næstu misserum.