Bankasýsla ríkisins telur að þau skilyrði sem stofnunin setur fyrir því að hefja söluferli á eignarhlut ríkisins í Landsbankanum séu til staðar. Hún hefur sent frá sér stöðuskýrslu um söluferlið og mun í kjölfarið óska eftir yfirlýsingum um áhuga af hálfu aðila sem vilja starfa með stofnuninni sem ráðgjafar í fyrirhuguðu söluferli. Ef Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tekur ákvörðun um að hefja söluferlið vorið 2016 býst Bankasýslan við því að hægt verði að ljúka sölu á allt að 28,2 prósent hlut í Landsbankanum á síðari hluta ársins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bankasýslunni.
Hægt er að lesa stöðuskýrsluna hér.
Bankasýslan hefur sett sér fjögur efnahagsleg viðmið um hvenær sé rétt að hefja söluferli á eignarhlutum ríkisins. Þau eru:
- Að íslenskt efnahagslíf hafi styrkst og náð stöðugleika.
- Að virðismat á fjármálafyrirtækjum sé ásættanlegt.
- Að fjárfestar hafi áhuga og bolmagn á fjárfestingu í eignarhlut.
- Að rekstur, afkoma, fjárhagsskipan og stjórnarhættir viðkomandi fjármálafyrirtækis bendi til þess að fjármálafyrirtækið geti talist álitlegur fjárfestingarkostur.
Bankasýslan verður ekki lögð niður
Kjarninn greindi frá því fyrr í vikunni að fjármála- og efnahagsráðherra hefði ekki uppi áform að svo komnu máli að leggja frumvarp um niðurlagningu Bankasýslu ríkisins fram að nýju. Bjarni lagði frumvarp sem fól slíka niðurlagningu í sér 1. apríl 2015 og samkvæmt frumvarpi til fjárlaga þessa árs sem lagt var fram í september í fyrra var ekki gert ráð fyrir neinum fjármunum í rekstur Bankasýslunnar.
Þegar fjárlög voru afgreidd í desember var hins vegar búið að þrefalda þá upphæð stofnun fær á í ár frá því sem rann til hennar úr ríkissjóði árið 2015. Í stað þess að loka Bankasýslunni verður hún ein áhrifamesta stofnun landsins í nánustu framtíð. Hún heldur á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum, er að undirbúa sölu á tæplega 30 prósent hlut í Landsbankanum sem fyrirhuguð er í ár, og mun taka á móti Íslandsbanka þegar kröfuhafar Glitnis afhenda ríkinu hann á næstu misserum.
Heimild til þess að selja hlut af hluta ríkisins í Landsbankanum hefur verið í lögum frá árinu 2011. Í fjarlagafrumvarpi ársins 2016 kemur fram að ríkið geri ráð fyrir því að um 71 milljarður króna fáist fyrir 30 prósenta hlut og að ágóðinn verði greiddur inn á skuldabréf sem voru gefin út til að fjármagna fallnar fjármálastofnanir árið 2008.
Til viðbótar hefur Bjarni Benediktsson ítrekað sagt að það sé ekki framtíðarlausn að ríkið eigi allt hlutafé í Íslandsbanka. Því má búast við að ríkið muni selja Íslandsbanka þegar það eignast hann. Auk þess hefur opinberlega verið greint frá áhuga íslenskra lífeyrissjóða og erlendra aðila á því að kaupa Arion banka, en Bankasýsla ríkisins heldur á þrettán prósent hlut ríkisins í honum.