Heimsmarkaðsverð á hráolíu hefur fallið um 4,16 prósent í dag á markaði í Bandaríkjunum, og kostar tunnan nú um 30 Bandaríkjadali. Það er lægsta verð í meira en áratug, eða frá því um mitt ár 2003. Verðfallið á fimmtán mánuðum nemur 72 prósentum.
Á Wall Street Journal kemur fram að ástæða lækkunarinnar sé rakin til minnkandi eftirspurnar í heimsbúskapanum, ekki síst í Kína, þar sem hagtölur hafa komið fram að undanförnu sem staðfesta meiri hægagangur væri í kínverska hagkerfinu en spár höfðu gert ráð fyrir.
Í Noregi, þar sem olíuiðnaður er hryggjarstykkið í efnahagslífinu, er mikill titringur vegna verðfallsins og hefur Statoil, þar sem norska ríkið á tæplega 70 prósent hlut, fallið í verði sjö daga í röð, og í dag var verðfallið 2,8 prósent.
Hér á landi ætti þessi verðlækkun á heimsmarkaði að skila sér í ódýrara bensíni. Atlantsolía sendi frá sér fréttatilkynningu í dag og lækkar bensín um tvær krónur og dísel um eina krónu. Ekki hefur komið tilkynning um lækkun frá öðrum olíufélögum.
Verð á bensíni hjá Atlantsolíu verður þá 190,60 og á dísel 175,60 kr. Bensín hefur þannig lækkað um 60 krónur frá sumrinu 2014.
Innkaupsverð á bensínlítra er í dag rúmar 40 krónur eða það sama og í janúar 2008. „Þá var hinsvegar hlutur ríkisins 70 krónur en er í dag 110 krónur eða 40 krónum hærri,“ segir í tilkynningu frá Atlantsolíu.
Bíleigendur myndu því spara um 10 milljarða á ársgrundvelli ef hlutur ríkisins í bensínlítranum væri sá sami og fyrir 8 árum.
„Að sama skapi skiptir lækkandi innkaupsverð gríðarmiklu máli í gjaldeyrissparnaði en í desember 2013 var innkaupsverð á bensíni um 45 krónum hærra. Það gerði eldsneytisinnkaupin á bensíni um 580 milljónum króna hærri eða um 7 milljörðum á ársgrundvelli,“ segir í tilkynningu frá Atlansolíu.