Póst- og fjarskiptastofnun hefur undanfarna níu mánuði heimilað Íslandspósti, fyrirtæki í eigu íslenska ríkisins sem er með einkarétt á bréfapósti, að hækka gjöld sín um allt að 26,4 prósent. Síðasta hækkunin tók gildi um síðustu áramót. Þetta kemur fram í gögnum sem Félag atvinnurekenda hefur tekið saman.
Hækkunin hefur verið á bilinu 16,1 til 26,4 prósent. Mest hefur hún verið á svokölluðum magnpósti B, póstflokki sem fyrirtæki nota til samskipta við viðskiptavini sína. Sá póstflokkur er jafnframt sá sem er mest notaður allra. Í frétt Félags atvinnurekenda segir að ríflegar hækkanir póstburðargjalda hefðu verið samþykktar í lok síðasta árs þrátt fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun hefði á sama tíma heimilað Íslandspósti að draga verulega úr þjónustu sinni við dreifbýli og dreifa þar pósti aðeins annan hvern virkan dag. Sú breyting mun taka gildi 1. mars næstkomandi.
Félag Atvinnurekenda segir það vekja athygli að „Póst- og fjarskiptastofnun skuli heimila þessar miklu gjaldskrárhækkanir Íslandspósts þrátt fyrir að enn sé ekki útkljáð hvort fyrirtækið hafi niðurgreitt gífurlegar fjárfestingar sínar og umsvif í óskyldum rekstri, til dæmis prentsmiðjurekstri og gagnageymslu, með tekjum af einkaréttinum. Íslandspóstur, sem er að fullu í eigu og á ábyrgð ríkisins, stendur í æ víðtækari samkeppni við einkafyrirtæki á ýmsum sviðum.“
Kvörtuðu yfir að bréfasendingum væri að fækka of hratt
Íslenska ríkið fer með einkarétt á dreifingu bréfa sem eru upp að 50 grömmum að þyngd en hefur falið Íslandspósti, fyrirtæki að fullu í eigu ríkisins, einkarétt á póstþjónustunni. Þeim einkarétti fylgir alþjónustuskylda sem felst í því að tryggja öllum landsmönnum aðgang að póstþjónustu.
Í byrjun árs 2015 sendi Íslandspóstur frá sér fréttatilkynningu þar sem sagði að þróun bréfamagns á Íslandi – bréfasendingum hefur fækkað hratt samhliða tækniframförum í samskiptaháttum - hafi haft verulega neikvæð áhrif á afkomu bréfadreifingar fyrirtækisins. Gera megi ráð fyrir að „tekjur af bréfadreifingu hefðu verið um 1.800 milljónum króna á árinu 2014 ef verð hefði breyst í samræmi við vísitölu neysluverðs og magn hefði haldist óbreytt frá árinu 2007.“
Magnminnkun á bréfum sem Íslandspóstur hefur einkarétt á var 8,1 prósent á árinu 2014. Bréfanotkunin minnkaði úr 50 milljónum árið 2007 í 27,5 milljónir árið 2014, eða um 45 prósent. Gera má ráð fyrir að samdráttur hafi verið í notkun bréfa á árinu 2015 einnig.
Í umræddri fréttatilkynningu, sem send var út 19. febrúar 2015, sagði að minni notkun fólks á bréfasendingum til samskipta gæri haft „alvarleg áhrif á afkomu Íslandspósts“.
Spáðu 30 prósent samdrætti til loka árs 2019
Spá Íslandspósts gerði ráð fyrir enn frekari magnminnkunum á næstu árum og að hún gæti orðið allt að 30 prósent frá 2015 til ársloka 2019. Íslandspóstur hafði þá um nokkurt skeið lagt fram tillögur til stjórnvalda um breytingar á fyrirkomulagi bréfadreifingar til að mæta auknum kostnaði og minnkandi tekjum. Fram á síðasta ár höfðu stjórnvöld ekki fallist á þær breytingar.
Síðustu níu mánuði hefur Íslandspóstur hins vegar fengið að hækka verðskránna á einkaréttarvörðum viðskiptum sínum umtalsvert og frá og með 1. mars mun þjónusta fyrirtækisins í dreifbýli skerðast umtalsvert.
Viðskiptablaðið greindi frá því í júlí 2015 að lausafé Íslandspósts væri nær uppurið og að laun starfsfólks yrðu ekki greidd nema með frekari lánsfjármögnun. Í frétt blaðsins kom fram að stjórn Íslandspósts hefði íhugað að skila inn rekstrarleyfi sínu. Af því hefur hin vegar ekki orðið.