Heimsmarkaðsverð á olíu hefur ekki verið lægra síðan árið 2003 vegna aukins útflutnings Íran á olíu eftir að viðskiptaþvingunum á landið var lyft um helgina. Hlutdeild Íran á markaðinum árið 2011 áður en til þvingana kom var um þrjár milljónir tunna á dag. Undanfarin ár hefur útflutningurinn numið um milljón tunnum á dag. Íranir segjast nú tilbúnir til að auka útflutning sinn um 500 þúsund tunnur á dag. Íran er ásamt helstu olíuríkjum heims, meðlimur í Samtökum olíuframleiðsluríkja (OPEC).
Aukin umsvif Írani á olíumarkaði og offramboð hefur gert það að verkum að hráolíuverð hrapaði í 27,67 dollara á tunnuna í morgun. Það er lægra en verðið hefur verið síðan 2003. Hæst fór heimsmarkaðsverð á olíu í rúmlega 130 dollara á tunnuna í júlí 2008 eftir að hafa hækkað jafnt og þétt síðan 2002. Verðið hrundi svo í efnahagshruninu árið 2008 en náði jafnvægi í um 100 dollurum árið 2011 og hafði haldist nokkuð stöðugt þar til um mitt ár 2014.
Viðskiptaþvinganir á Íran voru felldar niður um helgina samkvæmt kjarnorkusamkomulagi Bandaríkjann og Evrópusambandsins við Íran. Íranir stöðvuðu kjarnorkuframleiðslu sína gegn því að viðskiptaþvinganirnar yrðu felldar niður.
Framleiðsluaukning um hálfa milljón tunna á dag er talin vera auðsótt í Íran en markaðsgreinendur sem fréttastofa Reuters ræddi við telja aukningu umfram það verða erfiðari. „Íran þarf mikla erlenda fjárfestingu og tækni til að endurreisa framleiðslugetu sína,“ hefur Reuters eftir greinendum Morgan Stanley.