Visa International, bandarískt fyrirtæki, tilkynnti um yfirtöku á Visa Europe seint á árinu 2015 fyrir 21,2 miljarða evra, um þrjú þúsund milljarða króna. Búist er við því að kaupin klárist á næstu mánuðum.
Í Morgunblaðinu segir að alls séu um þrjú þúsund útgefendur Visa-kortanna í álfunni. Fyrirtækin fengu hlutdeild í Visa Europe þegar þau fengu leyfisveitingu hjá fyrirtækinu. Hver hlutur er metinn á tíu evrur. Hlutur íslensku fyrirtækjanna verður reiknaður sem hlutfall af heildarumsvifum allra þeirra fyrirtækja í Evrópu sem gefa út kortin. Því mun lokaniðurstaðan um hversu mikið fellur þeim í skaut ekki liggja fyrir fyrr en á öðrum ársfjórðungi.
Valdir aðilar keyptu Borgun á bakvið luktar dyr á lágu verði
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um söluna á Borgun undanfarin misseri. Í lok árs í 2014, í nóvembermánuði, seldi Landsbankinn Íslands, sem er í 98 prósent eigu íslenska ríkisins, 31,2 prósent hlut sinn í Borgun til Eignarhaldsfélagsins Borgunar slf., sem stofnað var skömmu fyrir kaupin á hlutnum. Tæplega 250 milljónir króna koma í hlut nýrra hluthafa.
Verðið sem Eignarhaldsfélagið Borgun slf., sem greiddi fyrir hlutinn þótti lágt bæði í innlendum og erlendum samanburði. Félagið greiddi um 2,2 milljarða króna fyrir hlutinn en hagnaður Borgunar 2013 var um einn milljarður króna.
Kjarninn hefur greint frá því að bankaráð Landsbankans hafi verið meðvitað um söluna og að hann hefði ekki farið í gegnum formlegt söluferli. Þessi eign ríkisbankans var ekki auglýst og öðrum áhugasömum kaupendum var ekki gefið tækifæri til að bjóða. Engu að síður taldi það rétt að selja hlutinn með þessum hætti, á bakvið luktar dyr til þess fjárfestahóps sem hafði sýnt áhuga á því að kaupa hlutinn.
Á meðal þeirra sem tilheyrðu fjárfestahópnum var Einar Sveinsson. Einar er föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Þeir voru auk þess viðskiptafélagar um árabil, en Bjarni hætti afskiptum að viðskiptum í lok árs 2008.
Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans, sagði í ræðu sinni á aðalfundi Landsbankans í fyrra að betra hefði verið að auglýsa hlutinn til sölu, og selja hann þannig í opnu og gagnsæju ferli.
Greiddu út arð skömmu eftir kaup
Ákveðið var að greiða hluthöfum Borgunar hf. 800 milljónir króna í arð vegna reksturs fyrirtækisins á árinu 2014 á síðasta aðalfundi fyrirtækisins, en hann fór fram í febrúar 2015. Þetta staðfesti Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, í samtali við Kjarnann. Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2007 sem greiddur er arður úr félaginu, en hagnaður þess var 1,4 milljarðar í fyrra og eigið fé í lok árs um fjórir milljarðar.Í maí seldi Landsbankinn svo 0,41 prósent hlut í Borgun, sem hann auglýsti til sölu í maí síðastliðnum, til félagsins Fasteignafélagið Auðbrekka 17 ehf. Þrír aðilar sýndu því áhuga að eignast hlutinn og komu þrjú tilboð í hann. Hluturinn var að lokum seldur hæstbjóðanda, en bankinn neitaði að gefa upp á hvaða verði hluturinn var seldur.