Samkeppniseftirlitið segir að ekki hafi komið til þess að það setti Landsbankanum tímamörk eða önnur bindandi skilyrði varðandi fyrirkomulag á sölu eignarhluta bankans í Borgun.„Sala Landsbankans á hlutum sínum í Borgun og Valitor og tilhögun hennar var því alfarið á forræði og á ábyrgð Landsbankans." Eftirlitið setti því aldrei skilyrði um að Landsbankinn myndi selja sig út úr Borgun.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Samkeppniseftirlitið sendi frá sér rétt í þessu vegna umfjöllunar um sölu á 31,2 prósent eignarhlut Landsbankans í Borgun. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, hafði þar meðal annars vísað til krafna og þrýstings sem Samkeppniseftirlitið hafi sett á bankann.
Í tilkynningunni segir einnig að ummæli Steinþórs í Fréttablaðinu í dag, um að bankinn hafi haft takmarkað aðgengi að upplýsingum um Borgun vegna sáttar við Samkeppniseftirlitið séu ekki rétt. Eftirlitið segist ekki geta fallist á „að ráðstafanir eftirlitsins hafi haft áhrif á skilmála eða viðskiptakjör umræddrar sölu."
Selt bakvið luktar dyr á lágu verði
Morgunblaðið greindi frá því í gærmorgun að íslensku greiðslukortafyrirtækin Borgun og Valitor muni hagnast um vel á annan tug milljarða króna vegna kaupa Visa Inc. á Visa Europe á um þrjú þúsund milljarða króna. Búist er við því að kaupin klárist á næstu mánuðum.
Borgun mun fá hlutdeild í söluverðinu þar sem fyrirtækið er á meðal þrjú þúsund útgefenda Visa- korta í Evrópu. Þessi tíðindi hafa vakið upp mikla umræðu þar sem Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn í Borgun í nóvember 2014 á 2,2 milljarða króna til Eignarhaldsfélagsins Borgunar. Hluturinn var ekki auglýstur og fór ekki í gegnum formlegt söluferli. Þess í stað var hluturinn seldur á bakvið luktar dyr til fjárfestahóps sem leitað hafði eftir því að kaupa hann. Hann samanstóð af stjórnendum Borgunar og meðfjárfestum þeirra. Á meðal þeirra sem tilheyrðu fjárfestahópnum var Einar Sveinsson. Einar er föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Þeir voru auk þess viðskiptafélagar um árabil, en Bjarni hætti afskiptum að viðskiptum í lok árs 2008. Verðið sem Eignarhaldsfélagið Borgun slf., sem greiddi fyrir hlutinn þótti lágt bæði í innlendum og erlendum samanburði. Félagið greiddi um 2,2 milljarða króna fyrir hlutinn en hagnaður Borgunar 2013 var um einn milljarður króna.
Á sama tíma og verið var að afgreiða kaupin hafði verið gert opinbert að Visa Inc. væri í viðræðum um að kaupa Visa Europe. Verðið þá var áætlað um 1.300 milljarðar króna samkvæmt fréttum bandarískra miðla á þeim tíma, eða rúmlega helmingur þess sem nú er talið að greitt verði fyrir hlutinn. Engu að síður lá fyrir undirrituð viljayfirlýsing um að viðskiptin myndu fara fram, með tilheyrandi greiðslum til allra þeirra útgefenda Visa-korta í Evrópu sem rétt áttu á hlutdeild í söluhagnaðinum. Á meðal þeirra var Borgun. Samt var ekki gert ráð fyrir því að Landsbankinn myndi fá hlutdeild í þeirri greiðslu ef kaup Visa inc. myndu ganga eftir þegar selt var til Eignarhaldsfélagsins Borgunar.
Á aðalfundi Borgunar 2015, sem fór fram tæpum þremur mánuðum eftir að kaupin voru frágengin, var ákveðið að greiða hluthöfum Borgunar hf. 800 milljónir króna í arð. Það var í fyrsta sinn sem arður var greiddur úr fyrirtækinu frá árinu 2007.
Kaup VISA Inc. á Visa Europe voru samþykkt í byrjun nóvember 2015. Það er því nokkuð síðan að þau voru gerð opinber og stjórnendur Borgunar hafa vitað vel að þau standi til. Í byrjun desember síðastliðinn reyndi breska greiðslumiðlunarfyrirtækið UPG að kaupa allt hlutafé Borgunar hf. en Íslandsbanki, sem á 63,5 prósent í fyrirtækinu, vildi ekki selja. Tilboðið sem UPG gerði var, samkvæmt frétt Vísis um málið, mun hærra en það sem Eignarhaldsfélagið Borgun greiddi fyrir sinn hlut í nóvember 2015.
Samkeppniseftirlitið hafnar fullyrðingum Steinþórs
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, sagði við RÚV í gær: „Við vorum undir þrýstingi frá samkeppnisyfirvöldum að selja og við töldum okkur vera að fá gott verð. Við vissum af þessum Visa samningi, eða viljayfirlýsingu út í heimi, við sáum ekki beina tengingu af því að Borgun hafði eiginlega ekkert verið í Visa viðskiptum, þau höfðu fyrst og fremst verið Mastercard fyrirtæki. Það er ekki fyrr en að við seljum sem þeir fara í miklu meiri vöxt inn í Visa og fyrir vikið er þessi greiðsla sem þau eru að fá komin til vegna viðskipta eftir að við seldum, eitthvað sem við sáum ekki fyrir á þeim tíma.“
Í Fréttablaðinu í morgun er haft eftir honum að Landsbankinn hafi haft takmarkað aðgengi að upplýsingum um Borgun vegna sáttar við Samkeppniseftirlitið. Landsbankinn hafi til að mynda ekki mátt vera með stjórnarmann í fyrirtækinu. Þá hafi verið hætta á að vöxtur Borgunar erlendis hefði endað illa.
Þessu hafnar Samkeppniseftirlitið í tilkynningu sem það hefur sent frá sér. Þar segir m.a. að í tilviki eignarhalds bankanna á Borgun, en bæði Landsbankinn og Íslandsbanki áttu í fyrirtækinu, þá hafi það ekki „skilyrði Samkeppniseftirlitsins að Landsbankinn fremur en Íslandsbanki seldi sig út úr félaginu[...]Áður en Samkeppniseftirlitið lauk sátt við Landsbankann í málinu hafði bankinn selt hlut sinn í Borgun og Valitor. Ekki kom því til þess að Samkeppniseftirlitið setti bankanum tímamörk eða önnur bindandi skilyrði varðandi fyrirkomulag á sölu eignarhluta. Sala Landsbankans á hlutum sínum í Borgun og Valitor og tilhögun hennar var því alfarið á forræði og á ábyrgð Landsbankans. Í frétt í Fréttablaðinu í dag er jafnframt haft eftir bankastjóranum að Landsbankinn hafi haft takmarkað aðgengi að upplýsingum um Borgun vegna sáttar við Samkeppniseftirlitið. Af þessu tilefni er rétt að taka fram að Samkeppniseftirlitið getur ekki fallist á að ráðstafanir eftirlitsins hafi haft áhrif á skilmála eða viðskiptakjör umræddrar sölu."
Eftirlitið segir einnig að í því skyni að ryðja samkeppnishindrunum úr vegi hafi bankarnir skuldbundið sig m.a. til þess að gera breytingar til frambúðar á eignarhaldi á kortafyrirtækjunum. „Þannig er hverjum þessara banka nú óheimilt að eiga eignarhlut í greiðslukortafyrirtæki með öðrum íslenskum viðskiptabanka. Eins og kunnugt er höfðu greiðslukortafyrirtækin tvö verið til lengri tíma í sameiginlegri eigu keppinauta á fjármálamarkaði. Sú skipan var að mati Samkeppniseftirlitsins ein af meginástæðum þeirra samkeppnishindrana sem sýnt hefur verið fram á."