Veltubók Arion banka keypti í gær rúmlega tíu milljón hluti í Símanum fyrir um 35 milljónir króna og eftir þau viðskipti er hún komin með yfir fimm prósent atkvæðisréttar í félaginu. Á veltubók Arion banka eru meðal annars varnir vegna framvirkra samninga við viðskiptavini bankans. Virði fimm prósent hlutar í Símanum er rúmlega 1,7 milljarðar króna. Að viðbættum öðrum eignarhlut Arion banka í Símanum á bankinn nú 11,53 prósent hlut í félaginu. Þetta kemur fram í flöggun Arion banka til Kauphallar Íslands vegna Símans.
Arion banki eignaðist stóran hlut í Símanum eftir að félagið var endurskipulagt fyrir nokkrum árum. Í fyrra seldi bankinn stærstan hlut af eign sinni í Símanum í nokkrum skrefum. Fyrst seldi bankinn hópi stjórnenda Símans og meðfjárfesta þeirra fimm prósent í félaginu á genginu 2,5 krónur á hlut. Sá hópur má ekki selja sinn hlut fyrr en í byrjun næsta árs.
Næst seldi Arion banki fimm prósent hlut til valdra viðskiptavina sinna í einkabankaþjónustu og markaðsviðskiptum á 2,8 krónur á hlut. Hópurinn var valinn út frá umfangi viðskipta sem hann átti við bankann, kaupin voru að hluta til fjármögnuð af Arion banka sjálfum og þessi hópur mátti selja bréf sín 15. janúar 2016. Nokkrum dögum síðar var haldið útboð á 21 prósent hlut Arion banka í Símanum þar sem umframeftirspurn var fimmföld og lokagengið var 3,33 krónur á hlut.
Gengi bréfa í Símanum eru í dag 3,59 krónur á hlut.