Greiðslukortafyrirtækið Borgun er metið á 19 til 26 milljarða króna, samkvæmt virðismati sem KPMG hefur unnið fyrir stjórn fyrirtækisins. Samkvæmt því er virði þess 31,2 prósent hlutar í Borgun sem Landsbankinn, sem er að mestu í ríkiseigu, seldi á 2,2 milljarða króna í nóvember 2014 nú sex til átta milljarðar króna. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Ef miðað er við miðgildi verðmatsins þá er hluturinn sem Landsbankinn seldi nú metinn á sjö milljarða króna, og hefur því rúmlega þrefaldast í virði á þeim rúmu 14 mánuðum sem liðnir eru frá því að ríkisbankinn seldi hann til hóps stjórnenda Borgunar og meðfjárfesta þeirra.
Í efri mörkum virðismatsins, sem gerir ráð fyrir því að virði Borgunar sé 26 milljarðar króna, er fullt tillit tekið til þeirra tekna sem yfirtaka Visa International Service á Visa Europe gæti tryggt Borgun.
Selt bakvið luktar dyr
Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn í Borgun til félags í eigu stjórnenda fyrirtækisins og meðfjárfesta þeirra þann 25. nóvember 2014 fyrir 2,2 milljarða króna. Fjárfestahópurinn gerði fyrst tilboð í hlutinn í mars 2014. Hlutur Landsbankans, sem er að mestu í ríkiseigu, var ekki seldur í opnu söluferli. Öðrum mögulega áhugasömum kaupendum bauðst því ekki að bjóða í hlutinn. Kjarninn upplýsti um það þann 27. nóvember 2014 hverjir hefðu verið í fjárfestahópnum og hvernig salan hefði gengið fyrir sig. Á meðal þeirra var Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.
Miðað við hefðbundna mælikvarða sem fjárfestar styðjast við í fjárfestingum þótti verðið lágt, hvort sem miðað er við fyrirtæki erlendis eða skráð fyrirtæki á Íslandi.
Kjarninn greinir frá því þann 29. apríl 2015 að ákveðið hefði verið á aðalfundi Borgunar í febrúar sama ár að greiða hluthöfum félagsins 800 milljónir króna í arð vegna frammistöðu fyrirtækisins á árinu 2014, þegar Landsbankinn var enn eigandi að tæplega þriðjungshlut. Þetta var í fyrsta sinn sem arður var greiddur út úr félaginu frá árinu 2007. Tæplega 250 milljónir króna féllu í hlut nýrra hluthafa, sem hefðu runnið til Landsbankans ef hann hefði ekki selt hlutinn.
Nýting á valrétti skapar milljarða fyrir íslensk fyrirtæki
Samið var um valrétt um kaup Visa Inc. á Visa Europe árið 2007. Valrétturinn var ótímabundinn. Nokkrum sinnum frá þeim tíma hafa farið af stað viðræður um að Visa Inc. nýti kaupréttinn. Þegar að Landsbankinn seldi hlut sinn í borgun var í gildi viljayfirlýsing um að ganga frá kaupunum. Fjórum dögum áður en Landsbankinn tilkynnti um söluna á hlut sínum í Borgun birtist frétt á heimasíðu Bloomberg-fréttaveitunar, sem er ein stærsta viðskiptafréttaveita í heimi, um að Visa Inc. gerði sér grein fyrir því að fyrirtækið þyrfti að greiða meira en 1.300 milljarða króna ef það ætlaði að nýta sér valrétt sinn á kaupum á Visa Europe. Landsbankinn hefur borið fyrir sig að Valitor hafi gefið út Visa-kort fyrir bankann og því hafi hann ekki talið sig eiga jafn mikla hagsmuni að gæta vegna valréttarins hjá Borgun. Í nóvember 2015 lá fyrir að Visa Europe yrði selt og á hvaða verði.
20. janúar 2016 birti Morgunblaðið forsíðufrétt um að kaup Visa Inc. á Visa Europe gætu skilað Borgun og öðru íslensku greiðslukortafyrirtæki, Valitor, á annan tug milljarða króna. Visa Inc. mun líkast til greiða um þrjú þúsund milljarða króna fyrir Visa Europe og það fé mun skiptast á milli þeirra útgefenda Visa-korta í Evrópu sem eiga rétt á hlutdeild í Visa Europe. Landsbankinn átti hlut í bæði Borgun og Valitor. Þegar bankinn seldi hlut sinn í Borgun gerði hann ekki samkomulag um hlutdeild í söluandvirði Visa Europe. Þegar hann seldi hlut sinn í Valitor í apríl 2015 gerði hann samkomulag um viðbótargreiðslu vegna þeirrar hlutdeildar Valitor í söluandvirði Visa Europe. Stjórnendur Borgunar hafa sagt að þeir hafi fyrst fengið upplýsingar um hugsanlegan ávinning fyrirtækisins vegna sölunar á Þorláksmessu 2015.
Eigendur Borgunar í dag eru Íslandsbanki með 63,47 prósent hlut, Eignarhaldsfélagið Borgun með 29,38 prósent hlut og BPS ehf., félag í eigu starfsmanna og stjórnenda Borgunar, sem á fimm prósent hlut.