Borgun segir að Landsbankinn hafi haft aðgang að öllum gögnum í tengslum við
sölu á hlut bankans í fyrirtækinu í nóvember 2014. Útbúið hafi verið sérstakt
gagnaherbergi þar sem Landsbankinn og aðrir aðilar máls höfðu fullan aðgang að
ítarlegum upplýsingum um Borgun og rekstur félagsins. „Þar lágu fyrir upplýsingar um aðild og eignarhlut Borgunar í Visa Europe
sem og upplýsingar um valréttarákvæði milli Visa Inc. og VISA Europe.“ Þetta
kemur fram í yfirlýsingu sem Borgun hefur sent frá sér.
Þar segir einnig að Borgun hafi aldrei búið aldrei yfir upplýsingum um hvort, hvenær né á hvaða verði Visa Europe yrði selt, fyrr en salan var gerð opinber þann 2. nóvember 2015. Vænt hlutdeild Borgunar í söluandvirði á VISA Europe hafi ekki orðið ljós fyrr en 21. desember sama ár. „Fyrir þann tíma hafði Borgun engar forsendur til þess að meta eignarhlut sinn í Visa Europe á annan hátt en gert var.“
Borgun segist enn fremur að fyrirtækið muni veita Landsbankanum allar þær upplýsingar sem hann óski eftir sem tengist söluferli hlutar Landsbankans í Borgun vegna fyrirspurna Bankasýslu ríkisins og annarra opinberra aðila.
Landsbankinn krafðist svara
Greint var frá því um helgina að Landsbankinn hefði sent bréf til Borgunar þar sem farið var fram á það við stjórnendur fyrirtækisins að þeir svari því hvaða upplýsingar hafi legið fyrir hjá fyrirtækinu eða stjórnendum þess um hvað það ætti rétt á að fá í sinn hlut ef Visa Inc. myndi kaupa Visa Europe, áður en Landsbankinn seldi þeim og meðfjárfestum þeirra hlut sinn í fyrirtækinu. Það gerðist í nóvember 2014. Auk þess hefur Landsbankinn farið fram á að vita hversu stór hluti hennar verði rakinn til rekstrarsögu fyrirtækisins áður en Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn.
Landsbankinn gaf stjórnendum Borgunar frest þangað til á þriðjudag til að svara spurningum bankans. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, sagði í samtali við RÚV um helgina að hann tryði því að menn hefðu starfað af heilindum í söluferlinu.„Það er það sem maður trúir, en við viljum sannreyna það með þessari beiðni okkar til þeirra. En í öllum þessum samtölum okkar við Visa Europe, við Borgun, við Valitor og Arion banka líka, þá kom þetta aldrei upp að það væri hægt að ætla að þarna væru verðmæti á ferðinni.“
Ef það komi í ljós að upplýsingum hafi verið haldið frá Landsbankanum í söluferlinu á hlut hans í Borgun muni bankinn leita réttar síns.„Þá er málið mjög alvarlegt, þá fer þetta bara í lögfræðilegan feril. Þá munum við gæta okkar hagsmuna með þeim aðferðum sem hægt er,“ segir Steinþór í samtali við fréttastofu RÚV.
Selt bakvið luktar dyr
Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn í Borgun til félags í eigu stjórnenda fyrirtækisins og meðfjárfesta þeirra þann 25. nóvember 2014 fyrir 2,2 milljarða króna. Fjárfestahópurinn gerði fyrst tilboð í hlutinn í mars 2014. Hlutur Landsbankans, sem er að mestu í ríkiseigu, var ekki seldur í opnu söluferli. Öðrum mögulega áhugasömum kaupendum bauðst því ekki að bjóða í hlutinn. Kjarninn upplýsti um það þann 27. nóvember 2014 hverjir hefðu verið í fjárfestahópnum og hvernig salan hefði gengið fyrir sig. Á meðal þeirra var Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.
Miðað við hefðbundna mælikvarða sem fjárfestar styðjast við í fjárfestingum þótti verðið lágt, hvort sem miðað er við fyrirtæki erlendis eða skráð fyrirtæki á Íslandi.
Kjarninn greinir frá því þann 29. apríl 2015 að ákveðið hefði verið á aðalfundi Borgunar í febrúar sama ár að greiða hluthöfum félagsins 800 milljónir króna í arð vegna frammistöðu fyrirtækisins á árinu 2014, þegar Landsbankinn var enn eigandi að tæplega þriðjungshlut. Þetta var í fyrsta sinn sem arður var greiddur út úr félaginu frá árinu 2007. Tæplega 250 milljónir króna féllu í hlut nýrra hluthafa, sem hefðu runnið til Landsbankans ef hann hefði ekki selt hlutinn.
Nýting á valrétti skapar milljarða fyrir íslensk fyrirtæki
Samið var um valrétt um kaup Visa Inc. á Visa Europe árið 2007. Valrétturinn var ótímabundinn. Nokkrum sinnum frá þeim tíma hafa farið af stað viðræður um að Visa Inc. nýti kaupréttinn. Þegar að Landsbankinn seldi hlut sinn í borgun var í gildi viljayfirlýsing um að ganga frá kaupunum. Fjórum dögum áður en Landsbankinn tilkynnti um söluna á hlut sínum í Borgun birtist frétt á heimasíðu Bloomberg-fréttaveitunar, sem er ein stærsta viðskiptafréttaveita í heimi, um að Visa Inc. gerði sér grein fyrir því að fyrirtækið þyrfti að greiða meira en 1.300 milljarða króna ef það ætlaði að nýta sér valrétt sinn á kaupum á Visa Europe. Landsbankinn hefur borið fyrir sig að Valitor hafi gefið út Visa-kort fyrir bankann og því hafi hann ekki talið sig eiga jafn mikla hagsmuni að gæta vegna valréttarins hjá Borgun. Í nóvember 2015 lá fyrir að Visa Europe yrði selt og á hvaða verði.
20. janúar 2016 birti Morgunblaðið forsíðufrétt um að kaup Visa Inc. á Visa Europe gætu skilað Borgun og öðru íslensku greiðslukortafyrirtæki, Valitor, á annan tug milljarða króna. Visa Inc. mun líkast til greiða um þrjú þúsund milljarða króna fyrir Visa Europe og það fé mun skiptast á milli þeirra útgefenda Visa-korta í Evrópu sem eiga rétt á hlutdeild í Visa Europe. Landsbankinn átti hlut í bæði Borgun og Valitor. Þegar bankinn seldi hlut sinn í Borgun gerði hann ekki samkomulag um hlutdeild í söluandvirði Visa Europe. Þegar hann seldi hlut sinn í Valitor í apríl 2015 gerði hann samkomulag um viðbótargreiðslu vegna þeirrar hlutdeildar Valitor í söluandvirði Visa Europe. Stjórnendur Borgunar hafa sagt að þeir hafi fyrst fengið upplýsingar um hugsanlegan ávinning fyrirtækisins vegna sölunar í desember 2015.
Á föstudag greindi Morgunblaðið svo frá því að Borgun sé metið á 19 til 26 milljarða króna, samkvæmt virðismati sem KPMG hefur unnið fyrir stjórn fyrirtækisins. Samkvæmt því er virði þess 31,2 prósent hlutar í Borgun sem Landsbankinn, sem er að mestu í ríkiseigu, seldi á 2,2 milljarða króna í nóvember 2014 nú sex til átta milljarðar króna.