Markaðsvirði stærstu banka heimsins hefur hríðfallið undanfarna daga, en ástæðurnar eru helst raktar til vaxandi óróa hjá fjárfestum vegna stöðu mála í heimsbúskapnum, að því er segir í umfjöllun Financial Times (FT) í dag. Deutsche Bank féll um 9,1 prósent í gær og Goldman Sachs um 6,1 prósent. Evrópskir bankar féllu að meðaltali um 6,4 prósent, og þeir bandarísku um 3,1 prósent.
Mestu lækkanir frá evru-krísunni
Skarpar lækkanir eins og þessar, á stærstu bönkum heimsins, hafa ekki sést síðan verstu lægðirnar voru á hlutabréfamarkaði á árunum 2010 og 2012, sem lauk með því að Seðlabanki Evrópu ýtti undir aukinn hagvöxt og framgang í efnahagslífinu með stuðningsaðgerðum og fjárinnspýtingu.
„Þessi viðbrögð hjá fjárfestum eru eins og að skjóta fyrst, og spyrja spurninga seinna,“ segir Ewen Cameron Watt, aðalráðgjafi BlackRock Investment, í viðtali við FT í dag. Vísar hann til þess að fjárfestar bregðist hraðar við orðrómi en áður, og því séu sveiflur oft ýktar, bæði til hækkunar og lækkunar. En það sem hræði stærstu fjárfestana mest, sjóði og fjármálafyrirtæki meðal annars, sé viðvarandi óstöðugleiki og óvissa.
Miklar sveiflur hafa einkennt hlutabréfamarkaði á þessu ári, en þegar á heildina er litið þá hefur verð á hlutabréfum lækkað um meira en tíu prósent á rúmlega einum mánuði, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Í Asíu hefur lækkunin verið enn meiri, þrátt fyrir mótvægisaðgerðir Seðlabanka Kína og einnig neikvæða vexti í Japan, en stýrivextir þar í landi voru lækkaðir úr núll í -0,1 prósent í síðasta mánuði. Allt er því reynt til að örva hagkerfið, með von um aukinn vöxt og fjárfestingu í huga. Hagvöxtur í Kína mældist í fyrra sá minnsti í aldarfjórðung, eða 6,9 prósent. Í fyrsta skipti í meira tvo áratugi var hagvöxtur í Indlandi meiri en í Kína, eða 7,5 prósent.
Olíuverðið hefur fallið, eftirspurn minnkar
Olíuverð hefur lækkað mikið á undanförnu, eins og fjallað hefur verið um að vef Kjarnans, en lækkunin nemur um 75 prósent þegar horft er yfir fimmtán mánaða tímabil. Um þessar mundir hefur verðið á hráolíu sveiflast í kringum 30 Bandaríkjadali á tunnuna, en undir lok árs 2014 fór það hæst í 115 Bandaríkjadali.
Verðlækkunin hefur öðru fremur verið skýrð með því að eftirspurn í heimsbúskapnum sé að minnka, á meðan framleiðsla hefur haldist óbreytt. Þannig sé ójafnvægi fyrir hendi milli framboðs og eftirspurnar.
Í FT í dag kemur fram að nú séu fjárfestar farnir að
óttast hið versta. Fjármálakerfin séu ekki nógu burgðug til að takast á við
samdráttarskeið, og að skuldum vafnir ríkissjóðir, ekki síst Evrópurlanda, muni
lenda í enn meiri erfiðleikum. Enn sem komið er eru það helst
hlutabréfamarkaðir sem sýna einkenni þess að fjárfestar óttist næstu mánuði.
Hagtölur í Bandaríkjunum hafa verið að batna á undanförnum mánuðum, og mælist
atvinnuleysi undir fimm prósentum þessi misserin, en nýjum störfum fækkaði hins
vegar nokkuð í janúar miðað við sama mánuð í fyrra.
Evrópu er atvinnuleysi að meðaltali ríflega tíu prósent, og hefur Seðlabanki
Evrópu sagt að hugsanlega muni koma til þess að nýjum stuðningaraðgerðum
bankans verið hrint í framkvæmd, sem miði að því að örva hagkerfin.