Landsbankinn hefur svarað spurningum Bankasýslu ríkisins vegna sölunnar á 31,2 prósent hlutnum í Borgun sem seldur var til valinn fjárfesta fyrir um 2,2 milljarða króna, í nóvember 2014. Kjarninn greindi fyrstu fjölmiðla frá því hvaða aðilar keyptu hlutinn, nákvæmlega tilgreint, og að söluferlið hefði farið fram bak við luktar dyr þar sem aðrir fjárfestar fengu enga aðkomu.
Í bréfi Landsbankans til Bankasýslunnar, sem birt hefur verið á vef bankans, kemur fram að Landsbankinn hafi álitið sig vera að selja á hæsta mögulega verði, og að engar annarlegar hvatir hafi legið að baki ákvörðuninni um viðskiptin.
Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans, sagði á aðalfundi bankans í fyrra að það hefðu verið mistök hjá bankanum að selja ekki fyrrnefndan hlut í opnu og gagnsæju ferli. Er ítrekað í bréfinu að bankinn hafi lært af því sem aflaga fór og breytt stefnu bankans þegar kemur að sölu eigna.
Á rúmlega ári hefur verðmæti Borgunar aukist mikið, en í nýlegu verðmati KPMG er hlutafé félagsins metið á allt að 26 milljarða króna, en í viðskiptunum sem fram fóru í lok nóvember 2014 var hlutaféð metið á um sjö milljarða. Munar þar ekki síst um 6,5 milljarða sem félagið fær sem hlutdeildargreiðslu í viðskiptunum, þegar VISA Inc. greiðir fyrir VISA Europe.
Landsbankinn segir í bréfi sínu til Bankasýslunnar að hann hafi ekki haft forsendur til þess að vita af því hvort og þá hvenær verðmeti hlutarins gæti aukist þetta mikið, þó vitað hafi verið af valréttinum sem tengdist VISA Inc. og VISA Europe.
Steinþór Pálsson bankastjóri og Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs, skrifa undir bréfið.
Fyrr í dag sendi Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, bréf til Bankasýslu ríkisins þar sem hann sagði „alvarlega“ stöðu komna upp vegna Borgunarmálsins. Landsbankinn væri stærsta fjármálastofnun landsins og ein verðmætasta fyrirtækjaeigna ríkisins, og að hún þyrfti að njóta trausts.