Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, og Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs bankans, unnu með Hauki Oddssyni, forstjóra Borgunar, í stjórnendateymi Íslandsbanka á tíunda áratug síðustu aldar. Störfuðu mennirnir saman í áratug og sátu um tíma allir saman í ellefu manna framkvæmdastjórn sem kallaðist Íslandsbankasveitin, og stýrði bæði bankanum og dótturfélögum hans. Frá þessu er greint í DV í dag.
Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn í Borgun til félags í eigu stjórnenda fyrirtækisins, meðal annars Hauks, og meðfjárfesta þeirra þann 25. nóvember 2014 fyrir 2,2 milljarða króna. Fjárfestahópurinn gerði fyrst tilboð í hlutinn í mars 2014. Hlutur Landsbankans, sem er að mestu í ríkiseigu, var ekki seldur í opnu söluferli. Öðrum mögulega áhugasömum kaupendum bauðst því ekki að bjóða í hlutinn. Miðað við hefðbundna mælikvarða sem fjárfestar styðjast við í fjárfestingum þótti verðið lágt, hvort sem miðað er við fyrirtæki erlendis eða skráð fyrirtæki á Íslandi.
í DV er rætt við Hauk Oddsson sem segist ekki hafa átt í neinum samskiptum við Steinþór né Tryggva á meðan né eftir söluna á Borgun. Það sé af og frá að samstarf hans við mennina á síðustu öld hafi haft áhrif á söluferli greiðslukortafyrirtækisins. „Þegar Steinþór hringdi í mig í síðustu viku voru það okkar fyrstu samskipti í 16-20 ár, eða síðan þeir Tryggvi hættu hjá Íslandsbanka hinum eldri. Við höfum því ekki haldið neinu sambandi,“ segir Haukur við DV.
Virði Borgunar hefur margfaldast á rúmu ári
Virði Borgunar hefur margfaldast síðan að Landsbankinn seldi hlut sinn, sérstaklega vegna þess að Borgun fær hlutdeild í söluhagnaði vegna kaupa Visa Inc. á Visa Europe. Samkvæmt nýlegu mati er virði Borgunar áætlað allt að 26 milljarðar króna, en var um sjö milljarðar króna fyrir rúmum fjórtán mánuðum þegar Landsbankinn seldi hlut sinn.
Borgun býst við því að fá 33,9 milljónir evra, um 4,8 milljarða króna, í peningum þegar Visa Inc. greiðir fyrir Visa Europe. Auk þess fær Borgun, líkt og aðrir leyfishafar innan Visa Europe, afhent forgangshlutabréf í Visa Inc. að verðmæti 11,6 milljónir evra, eða um 1,7 milljarðar króna. Þá mun Visa Inc. greiða leyfishöfum afkomutengda greiðslu árið 2020 sem mun taka mið af afkomu starfsemi Visa í Evrópu á næstu fjórum árum, en hlutdeild Borgunar af þeirri fjárhæð mun ráðast af viðskiptaumsvifum Borgunar sem hlutfall af heildarviðskiptaumsvifum allra seljenda hlutabréfanna á þessum 4 árum.
Því er ljóst að Borgun mun fá um 6,5 milljarða króna auk afkomutengdar greiðslu árið 2020 vegna sölu Visa Europe.