Nær allir á Íslandi búa í þéttbýli, eða um 94 prósent. Hlutfallið er hæst á Íslandi af öllum Norðurlöndum. Í Noregi búa um 80 prósent íbúa í þéttbýli og 20 prósent í sveit og er það lægsta hlutfall þéttbýlisíbúa á Norðurlöndunum. Hlutfall íbúa í þéttbýli er næsthæst í Danmörku, um 88 prósent. Þetta kemur fram í nýrri samnorrænni skýrslu um stöðu Norðurlandanna sem birt var í dag.
Sérstakur kafli um íbúafjöldaþróun á Íslandi
Í skýrslunni er sérstakur kafli sem heitir Íbúaþróun á Íslandi. Þar segir að í góðærinu 1997 til 2008 hafi íbúum landsins fjölgað gífurlega, en fólk hafi þó yfirgefið landið að sama skapi eftir efnahagshrunið. Það var þó einungis einn fjórði af fjölguninni árin áður.
Ísland er ólíkt hinum Norðurlöndum hvað varðar fólksflutninga því það er breytilegt á milli ára hvort fleiri flytjast til eða frá landinu. Þannig hefur það verið frá árinu 1960. Árið 2014 var stærstur hluti innflytjenda á Norðurlöndunum erlendir ríkisborgarar eða að meðaltali 81% en hlutfallið er breytilegt, frá 62% á Íslandi til 88% í Noregi. Sé horft til fólksflutninga innan Norðurlandanna flytja mun færri til Íslands og Finnlands en hinna landanna, 25% þeirra sem flytja til Finnlands eru af öðru þjóðerni en aðeins 14% þeirra sem flytja til Íslands. Munurinn kanna að endurspegla ólíka atvinnu- og námsmöguleika í löndunum, þar sem til dæmis námsframboð í Svíþjóð, Noregi og Danmörku kann að laða að Íslendinga og Finna.
Minnsta atvinnuleysið á Íslandi, Færeyjum og Álandseyjum
Atvinnuleysi er mun minna á Íslandi heldur en gengur og gerist á hinum Norðurlöndunum. Samkvæmt skýrslunni trónir Ísland, Færeyjar og Álandseyjar á toppnum varðandi hlutfall þeirra íbúa sem hafa vinnu árið 2014. Ekki er að finna merkjanlegan mun samkvæmt skýrslunni á atvinnuleysi karla og kvenna í þessum löndum.
Atvinnuleysið er mest á Finnlandi af Norðurlöndunum, og næstmest í Danmörku. Noregur og Svíþjóð eru í miðjunni. Farið er ítarlega yfir áhrif efnahagskreppunnar 2008 á öll Norðurlöndin í skýrslunni. Tekið er fram að hagvöxtur hafi einungis vaxið umtalsvert á Íslandi og í Svíþjóð.
Reykjavík minnst eftirsótti höfuðstaðurinn
Reykjavík er minnst eftirsótta norræna höfuðborgin. Osló, Kaupmannahöfn, Stokkhólmur og Helsinki verma efstu sæti listans í skýrslunni og Reykjavík endar í því tíunda. Kjarninn greindi frá þessu í morgun. Svæðin í eftstu sætunum búa yfir mikilli samkeppnishæfni og laða að sér bæði fjármagn og mannauð. Horft er á þróun og framtíðarhorfur einstakra svæða eru háðar efnahagshorfum, horfum á vinnumarkaði og íbúaþróun. Notast er við nýjan flokkunarstuðul Nordregio til að greina og flokka einstaka þætti.