Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia-háskóla, segir að stjórnendur Borgunar kunni ekki að skammast sín vegna kaupa þeirra á hlut í fyrirtækinu af Landsbankanum. Skömm þeirra virðist hins vegar vera mikil. „Svo virðist sem þeir hafi séð tækifæri til þess að hafa mikil verðmæti af almenningi og tekið það. Ég er ekki dómbær á það hvort það sem þeir gerðu sé ólöglegt. En það lítur alla veg út fyrir að vera siðlaust. Eða var það ekki hlutverk þeirra sem stjórnenda Borgunar að upplýsa eiganda Borgunar (þ.e. Landsbankann) sem þeir voru að vinna fyrir um raunverulegt verðmæti fyrirtækisins? En hvernig gat það samrýmst því að þeir sjálfir væru að semja við Landsbankann um að kaupa hlutinn? Á ensku kallast þetta conflict of interest. Nú bera þeir fyrir sig að hafa selt helming af því sem þeir keyptu áður en tilkynnt var um söluna á Visa Europe. Fróðlegt væri að vita á hvaða verði sú sala fór fram." Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu Jóns á Facebook.
Mikil harka er hlaupið í hið svokallaða Borgunarmál. Það snýst um kaup Eignarhaldsfélagsins Borgunar, sem var í eigu stjórnenda Borgunar og meðfjárfesta þeirra, á 31,2 prósent hlut í fyrirtækinu á 2,2 milljarða króna í nóvember 2014. Salan fór fram bakvið luktar dyr og öðrum gafst ekki tækifæri til að bjóða í hlutinn. Síðar hefur komið í ljós að valréttur vegna kaupa Visa Inc. á Visa Europe tryggir Borgun milljarðahagnað sem ekki var tekinn með í reikninginn þegar hlutur ríkisbankans var seldur. Nýlegt verðmat sem KPMG vann á Borgun metur fyrirtækið á allt að 26 milljarða króna. Heildarvirði þess samkvæmt kynningum sem fóru fram í aðdraganda sölu á hlut Landsbankans var sjö milljarðar króna.
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, sagði í Kastljósi í gær að hann hefði ekki íhugað að segja af sér vegna sölu bankans á hlut sínum í Borgun. Hann sagði einnig að það sé til skoðunar að kæra stjórnendur Borgunar, sem keyptu hlutinn, vegna sölunnar og að Fjármálaeftirlitið sé einnig að fara yfir málið. Þá sé einnig til skoðunar að rifta sölunni á hlutnum ef það sé mögulegt. Steinþór sagði að honum þyki það sérstakt að stjórnendur Borgunar hafi ekki upplýst hann og Landsbankafólk um hvers virði valréttur fyrirtækisins vegna kaupa Visa Inc. á Visa Europe gæti verið þegar stjórnendurnir kynntu stöðu Borgunar fyrir Landsbankanum þegar salan fór fram.
Í yfirlýsingu frá Borgun, sem send var út í kjölfar viðtalsins, kom fram að stjórn Borgunar geri alvarlegar athugasemdir við framgöngu Steinþórs í fjölmiðlum. Segir í yfirlýsingunni að Steinþór hafi „ítrekað farið með dylgjur og óbeinar ásakanir um óheiðarleika og illan ásetning stjórnenda Borgunar“ sem standist enga skoðun.