Milljarðamæringurinn Bill Gates hefur útbúið stærðfræðijöfnu sem hann segir að sé lykillinn að því að stöðva útblástur gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Bill eyðir sínum helmingi árlegs bréfs þeirra Melindu Gates á vefnum gatesnotes.com í loftslagsmálin. Hann segist vera upptekinn af orkunotkun og hefur undanfarið fjárfest mikið í verkefnum sem lúta að framleiðslu hreinnar orku.
Bill Gates er meðal ríkustu og áhrifamestu einstaklinga í heimi en hann var einn stofnenda Microsoft. Í lok síðasta árs stofnaði Gates stóran fjárfestingasjóð sem á að fjárfesta í hreinni orkuframleiðslu. Í sjóðnum eru margir milljarðar dollara. Gates er hins vegar raunsær og gerir sér grein fyrir að það verður ekki til neitt „orkukraftaverk“ á næstu árum eins og efasemdamenn um loftslagsbreytingar hafa kallað það.
Stærðfræðijöfnuna sem Gates hefur búið til má nota til útskýringar á því hvernig mannkynið eykur eða minnkar gróðurhúsaáhrifin. Sé einn liður jöfununnar núll verða gróðurhúsaáhrifin núll, sem er markmiðið til til framtíðar.
Jafnan er einföld. Öðrumegin höfum við liði sem eru margfaldaðir með hvor öðrum: Fólksfjöldi (P), þjónustur sem fólk notar (S), orkunotkun þjónustunnar (E) og mengun sem verður til við orkuframleiðsluna (C). Hinumegin er svo útkoman sem er koldíoxíðið sem við blásum út í andrúmsloftið og veldur gróðurhúsaáhrifunum. Útkoman þarf að vera núll svo einn liðanna verður á endanum að vera núll.
Þá er hægt að fara í gegnum jöfnuna, lið fyrir lið, til að komast að raun um hvernig er hægt að fá útkomuna núll. Fólksfjöldinn (P) er sem stendur sjö milljarðar og reiknað er með að fjöldi fólks árið 2050 verði níu milljarðar. „Ekki séns að það verði núll,“ skrifar Bill Gates.
Næst tekur hann fyrir þjónustuna sem fólk notar (S). „Þetta er allt: matur, föt, hiti og rafmagn, hús, bílar, sjónvörp, Taylor Swift-plötur og svo framvegis.“ Þetta er með öðrum orðum tala sem getur ekki lækkað, að mati Gates. Orkan (E) sem þessar þjónustur notar er hins vegar eitthvað sem hægt er að takmarka. Sparneytnari bílar, sparljósaperur og fleiri uppfinningar munu verða til þess að orkuþörfin minnkar. Fólk hefur einnig verið að breyta venjum sínum í auknum mæli í þeim tilgangi að spara orku. „Fólk hjólar, notar hópakstursakreinar þjóðvega og hitar hús sín örlítið minna,“ skrifar Gates.
Eina stærðin sem er eftir er orkuframleiðslan (C). Það er magn mengunar sem verður til við framleiðslu orkunnar. „Megnið af orkuframleiðslu heimsins, fyrir utan vatnsafslvirkjanir og kjarnorku, verður til með bruna jarðefnaeldsneytis og kola. Útblástur þessara aflgjafa er gríðarlegur. Hér eru hins vegar einnig góðar fréttir,“ skrifar Gates enn fremur og bendir á að nýjar og grænar tæknilausnir muni gera okkur kleift að framleiða útblásturslausa orku með virkjun sólarljóss og vinds.
Gates segist vera bjartsýnn á að nýjar leiðir í orkuframleiðslu verði til í framtíðinni. Hann spáir því að innan 15 ára muni mannkynið finna upp nýja og hreina orkulind sem muni bjarga jörðinni okkar og knýja heiminn í framtíðinni. Og það „sérstaklega ef ungt fólk tekur þátt,“ skrifar hann.
„Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er stórt; jafnvel stærra an fólk gerir sér grein fyrir. En það eru tækifærin líka. Ef okkur tekst að finna leiðir til að framleiða ódýra hreina orku þá mun það gera miklu meira en að stöðva loftslagsbreytingarnar. Það mun breyta lífi fátækasta fólksins í heiminum.“