Kvikmyndin Spotlight, sem leikstýrt var af Tom McCarthy, hlaut í nótt Óskarsverðlaun fyrir bestu kvikmynd síðasta árs. McCarthy og Josh Singer hlutu einnig verðlaunin fyrir besta frumsamda handrit. Mad Max: Fury Road hlaut flest verðlaun allra mynda, eða sex talsins, á hátíðinni í nótt. Eini Íslendingurinn sem var tilnefndur til Óskarverðslauna, Jóhann Jóhannsson, þurfti að eftirláta sjálfum Ennio Morricone verðlaunin fyrir bestu tónlistina. Morricone fékk verðlaunin fyrir tónlist sína fyrir Tarantino-myndina The Hateful Eight. Morricone er 87 ára gamall og varð því elsti Óskarsverðlaunahafi frá upphafi.
Leonardo Di Caprio fékk loks Óskar fyrir hlutverk sitt í The Revenant og Brie Larsson hlaut verðlaunin sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir frammistöðu sína í Room. Alejandro González Iñárritu var valinn besti leiksstjórinn annað árið í röð, í þetta sinn fyrir The Revenant. Hægt er að sjá yfirlit yfir alla verðlaunahafa neðst í fréttinni.
Það þarf heilt þorp til að þagga niður
Kjarninn fjallaði ítarlega um Spotlight í síðasta mánuði. Myndin segir sanna sögu rannsóknarblaðamennskuteymisins Spotlight hjá dagblaðinu Boston Globe, sem afhjúpar gríðarlegt umfang kynferðisbrota innan kaþólsku kirkjunnar í Boston í Bandaríkjunum 2001 og 2002. Umfjöllun Spotlight leiddi til þess að kardinálinn í Boston, Bernard Law, var fluttur til í starfi og kynferðisbrot 249 presta litu dagsins ljós, eftir áratugalanga þöggun. Fjöldi þolenda sem kaþólskir prestar höfðu níðst á, var yfir þúsund. Langflest fórnarlömbin voru ungir drengir, en einnig stúlkur.
Myndin leyfir áhorfendum að skyggnast inn í líf og aðstæður blaðamannanna sem vinna að málinu, og ritstjórnarinnar allrar, og sýnir á grímulausan og raunsæjan hátt hvernig samfélagið var orðið gegnsýrt af spillingu og þöggun í kring um glæpi prestanna. Vitneskja um brotin var til staðar innan allra helstu innviða samfélagsins; kirkjunnar, skólanna, dómskerfisins og fjölmiðlanna sjálfra.
Söguþráðurinn er á vissan hátt keimlíkur þeim atburðum sem skóku íslenskt samfélag fyrir nokkrum árum þegar kynferðisbrot innan þjóðkirkjunnar, og síðar kaþólsku kirkjunnar og sértrúarsafnaðarins Krossins, litu dagsins ljós.
Hægt er að lesa umfjöllun Kjarnans í heild sinni hér.
Óskarverðlaunahafarnir í heild sinni:
Besta kvikmynd: Spotlight
Besti leikstjóri: Alejandro González Iñárritu - The RevenantBesta leikkona í aðalhlutverki: Brie Larson - Room
Besti leikari í aðalhlutverki: Leonardo di Caprio
Besta leikkona í aukahlutverki: Alicia Vikander - The Danish Girl
Besti leikari í aukahlutverki: Mark Ryland - Bridge of Spies
Besta kvikmyndin á öðru máli en ensku: Son of Saul/Sonur Sauls - Ungverjaland
Besta heimildamyndin: Amy
Besta frumsamda handrit: Tom McCarthy og Josh Singer - Spotlight
Besta handrit byggt á öðru verki: Charles Randolph og Adam McKay - The Big Short
Besta hreyfimyndin í fullri lengd: Inside Out
Besta kvikmyndataka: Emanuel Lubezki - The Revenant
Besta klipping: Margaret Sixel - Mad Max: Fury Road
Besta tónlist: Ennio Morricone - The Hateful Eight
Besta lagið: Writing's on the Wall e. Jimmy Napes og Sam Smith - Spectre
Besta stuttmyndin: Stutterer/Stamarinn
Besta stutta heimildamyndin: A Girl in the River
Besta stutta hreyfimyndin: Historia de un oso/Bjarnarsaga
Bestu tæknibrellur: Andrew Whitehurst, Paul Norris, Mark Ardington og Sara Bennett - Ex Machina
Besta hljóðklipping: Mark Mangini og David White - Mad Max: Fury Road
Besta hljóðblöndun: Chris Jenkins, Gregg Rudloff og Ben Osmo - Mad Max: Fury Road
Besta leikmynd: Colin Gibson og Lisa Thompson - Mad Max: Fury Road
Bestu búningar: Jenny Beavan - Mad Max: Fury Road
Besta förðun/hár: Elka Wardega og Damian Martin - Mad Max: Fury Road