Hillary Clinton og Donald Trump voru sigurvegarar hins svokallaða ofur-þriðjudags í forvali stærstu stjórnmálaflokka Bandaríkjanna, Demókrataflokksins og Repúblikanaflokksins, í gærkvöldi og nótt. Ofur-þriðjudagurinn, er óformlegt nafn á þeim degi þar sem flest ríki í Bandaríkjunum halda forvöl fyrir forsetakosningarnar.
Clinton sigraði í forvali demókrata í sjö af þeim ellefu ríkjum sem kosið var í í gær en keppinautur hennar um útnefninguna, Bernie Sanders, sigraði í fjórum. Staða Clinton í baráttunni um að hljóta útnefningu demókrata fyrir forsetakosningarnar í haust styrktist því mjög.Clinton fékk flest atkvæði í Alabama, Arkansas, Georgia, Massachusetts,Tennessee, Texas og Virginíu. Sanders sigraði hins vegar í Colorado, Minnesota, Oklahoma og Vermont.
Hér að neðan má sjá sigurræðu hennar.
Hin óvænta sigurganga Donald Trump í baráttunni fyrir að hljóta útnefningu repúblikana hélt áfram í gærkvöldi og nótt. Hann sigraði í alls sjö af þeim tíu ríkjum sem úrslit liggja þegar fyrir í. Ted Cruz sigraði í tveimur ríkjum, þar á meðal heimaríki sínu Texas. Hann sigraði einnig í Oklahoma, Marco Rubio varð hlutskarpastur í einu ríki , Minnesota. Trump fékk flesta kjörmenn kjörna í Alabama, Arkansas, Georgíu, Massachusetts, Tennessee, Vermont og Virginíu. Trump hefur nú þegar tryggt sér 251kjörmann og þeim gæti fjölgað þegar líður á daginn í dag þegar talningu lýkur í fleiri ríkjum sem kosið var í. Alls þarf 1.237 kjörmenn til að tryggja sér útnefningu repúblikana og virðist fátt geta komið í veg fyrir að Trump hljóti hana.
Trump hélt ekki eiginlega sigurræðu heldur langan blaðamannafund. Hann má sá hér að neðan.
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um bandarísku forsetakosningarnar að undanförnu. Hér má lesa tíu staðreyndir um ofur-þriðjudaginn og hér má lesa fréttaskýringu Bryndísar Ísfoldar Hlöðversdóttur af vettvangi þeirra sem birtist um liðna helgi.