Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vill að ríki sambandsins aflétti vegabréfaeftirliti á innri landamærum fyrir lok þessa árs, til þess að bjarga Schengen-samstarfinu, einu helsta afreki Evrópusamvinnu. Þetta kemur fram í drögum að skýrslu frá framkvæmdastjórninni, sem breska blaðið Guardian hefur séð og skrifar um í dag.
Landamæraeftirlit og ýmiss konar landamæri hafa birst innan Evrópu í tengslum við flóttamannavandann í álfunni. Frá því í september í fyrra hafa átta ríki innan Schengen-svæðisins tekið upp landamæraeftirlit á ný. Samkvæmt skýrsludrögunum hefur landamæraeftirlit vakið upp spurningar um raunverulega virkni Schengen svæðisins og frjálsrar farar. Nú sé kominn tími fyrir ríki til að taka sig saman og láta hagsmuni svæðisins alls ráða, til þess að halda einu helsta afreki sambandsins gangandi. Skýrslan verður gerð opinber á föstudaginn.
Framkvæmdastjórnin vill að þessum landamæralokunum verði aflétt eins fljótt og hægt er og ekki síðar en í nóvember 2016. Hún vill hins vegar líka að eftirlitið á ytri landamærum Schengen verði eflt verulega, og mun á ný vara Grikki við því að þeir verði mögulega látnir víkja úr Schengen ef þeim tekst ekki að bæta landamæraeftirlit í maí.
Skýrslan er gerð nú í aðdragana fundar ESB og Tyrklands um flóttamannamálin, sem hefst eftir helgi.