Verðlækkunin á olíu undanfarna sextán mánuði, sem nemur um 70 prósentum, hefur komið illa við norska hagkerfið og er meginástæða þess, að norsk stjórnvöld töldu réttlætanlegt að nýta lítinn hluta af hinum stóra olíusjóði Noregs heima fyrir.
Meira en 95 prósent af eignum norska olíusjóðsins, sem nema um 800 milljörðum
Bandaríkjadala, eða sem nemur rúmlega 106 þúsund milljörðum króna, er í
erlendum eignum utan Noregs. Sjóðurinn hefur tapað töluverðu af verðgildi sínu
að undanförnu, eða um fjórum prósentum miðað uppgjör í lok síðasta árs.
Yngve Slyngstad, forstjóri sjóðsins,
segir að eignasafn sjóðsins sé dreift á milli fjölmargra eignamarkaða um allan
heim, og það sé næmt fyrir niðursveiflum á heimsmörkuðum, að því er fram kom í
viðtali við Slyngstad hjá CNBC, í lok október í fyrra.
Upphæðin sem nú hefur verið greidd til norska ríkisins, verður síðan nýtt til
þess að örva efnahagslífið, meðal annars með innviðafjárfestingum, nemur 6,7
milljörðum norskra króna, eða sem nemur um 100 milljörðum króna. Það er upphæð
sem er um 0,1 prósent af stærð sjóðsins, miðað við lok árs í fyrra.
Norsk stjórnvöld hafa sagt, að varlega verði farið í að nota fjármuni úr
sjóðnum heima fyrir, enda er sjóðurinn svo stór, að þensla getur skapast ef
ákveðið verður að nýta of stóran hluta hans þar. Jafnvel þó lægð sé nú í
efnahagslífinu, sé miðað við uppgangstímann á liðnum árum.