Fjórar stofnanir munu ráðstafa 250 milljóna króna framlagi frá íslenska ríkinu til að styðja við bakið á flóttafólki, einkum frá Sýrlandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
250 milljóna aukaframlag til mannúðarmála var samþykkt í fjáraukalögum í lok síðasta árs. Ákveðið hefur verið að stærstur hluti fjármagnsins fari til Samræmingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Fyrrnefnda stofnunin fær 98 milljónir króna, sem renna í neyðarsjóð fyrir Líbanon. Þar er mikil þörf á aðstoð vegna vaxandi fjölda flóttafólks frá Sýrlandi.
Samkvæmt utanríkisráðuneytinu er Ísland þar með meðal sex helstu styrktaraðila sjóðsins, en hin ríkin eru Belgía, Holland, Þýskaland, Danmörk og Svíþjóð.
Flóttamannastofnunin fær 80 milljónir króna og Rauði krossinn mun ráðstafa 52 milljónum til að efla neyðarheilbrigðisþjónustu fyrir Sýrlendinga á flótta í Líbanon. Þá mun Hjálparstarf kirkjunnar fá 20 milljónir króna vegna stuðnings við flóttafólk í Sýrlandi, Jórdaníu og Líbanon.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að full ástæða sé til að veita fé til þeirra sem veita sýrlensku flóttafólki mannúðaraðstoð á vettvangi, þar sé mesta neyðin. „Með því að ráðstafa fjármagninu á þennan hátt erum við að svara kalli Sýrlendinga sjálfra en einnig nágrannaríkjanna, Líbanons og Jórdaníu, sem hafa mátt axla miklar byrðar vegna komu hundruð þúsunda Sýrlendinga yfir landamærin,“ segir hann í tilkynningu.