Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ræddi hvorki við Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra né stjórnendur Landsspítalans áður en að opinberaði þann vilja sinn í gær að byggja nýjan Landsspítala við Vífilsstaði í Garðabæ í stað þess að hann verði byggður við Hringbraut, þar sem spítalinn stendur í dag. Þetta sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landsspítalans, í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í dag.
Sigmundur skrifaði grein á vefsíðu sína í gær þar sem hann lýsti yfir þeim vilja sínum að stjórnvöld skoði hvort ekki sé best að ráðast í byggingu nýs Landspítala við Vífilsstaði í Garðabæ. Í Morgunblaðinu í gær var rætt við bæjarstjórann í Garðabæ um möguleikann á uppbyggingu Landspítala við Vífilsstaði. Bæjaryfirvöld þar segjast reiðubúin í samstarf um byggingu nýs spítala þar, og hægt sé að liðka fyrir málinu á ýmsan hátt.
Sigmundur Davíð sagðist í grein sinni vera mjög jákvæður gagnvart þessari hugmynd. „Að mínu mati ber stjórnvöldum að bregðast við þessu tilboði Garðabæjar, taka því fagnandi og skoða hvort ekki sé best, í ljósi allra aðstæðna að ráðast í byggingu nýs Landspítala við Vífilsstaði. Með því væri hægt að byggja spítalann hraðar, á hagkvæmari hátt og miklu, miklu betur.“
Hann sagði einnig að margt muni vinna með ef spítalinn verði byggður á nýjum stað. Ekki bara staða ríkissjóðs sem hafi batnað. „Verðmæti fasteigna og lóða í miðbæ Reykjavíkur hefur hækkað gríðarlega frá því að síðast var lagt mat á staðsetningu spítalans. Með því að selja húsnæði og lóðir gætu ríki og borg náð tugmilljarða tekjum. Þessar tekjur gæti ríkissjóður nýtt til að standa straum af umtalsverðum hluta byggingarkostnaðar nýs spítala.“
Hægt væri að selja húsnæði og lóðir og nýta fjármagn strax til að flýta fyrir framkvæmdum á nýjum stað þótt spítalinn myndi ekki flytja strax. „Einnig gæti ríkið veitt öðru fjármagni, t.d. arði úr bönkunum í spítalabygginguna þar til tekjur af sölu eigna við Hringbraut skiluðu sér.“ Aðrar leiðir komi til greina en hvaða leið sem farin yrði „myndu tugir milljarða skila sér í ríkissjóð við það að færa spítalann. Peningar sem ekki yrðu til ella.“ Þá peninga mætti nýta í aðra innviðauppbyggingu, ekki síst á landsbyggðinni.
Páll brást við skrifum forsætisráðherra með pistli á heimasíðu Landsspítalans í gær þar sem hann sagði m.a. :„Við þessar aðstæður er algerlega óþolandi að heyra enn úrtöluraddir um uppbyggingu Landspítala við Hringbraut. Hér er alvörumál á ferðinni sem snýst um öryggismál allra landsmanna. Eftir 15 ára yfirlegu hefur staðsetning spítalans verið ákveðin og þeir sem kjósa að hleypa þessu máli upp nú þegar framkvæmdir eru hafnar og málinu hefur verið siglt í höfn verða að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni.“
Í Vikulokunum í dag var Páll spurður um hvort hann viti til þess að Sigmundur Davíð hefði rætt hugmyndir sínar við heilbrigðisráðherra áður en hann setti þær fram. Páll sagðist ekki vita til þess að hugmyndirnar hefðu verið ræddar við neinn. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekendenda, var einnig gestur í þætti dagsins. Hann sagði að í siðmenntuðu landi myndu ummæli Sigmundar Davíðs, og inngrip hans inn á verksvið annars ráðherra, þýða stjórnarkreppu.
Kristján Þór hefur margoft sagt að uppbygging nýs Landsspítala verði við Hringbraut og það er sú stefna sem ríkisstjórnin vinnu eftir. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sigmundur Davíð viðrar skoðanir sínar á því að byggja nýjan Landsspítala annars staðar. Það gerði hann einnig í 1. apríl í fyrra. Þá sagði hann í fréttum RÚV að hann teldi ástæðu til að kanna hvort skynsamlegt væri að reisa nýjan Landsspítala á lóð Ríkisútvarpsins. Skoða ætti hvort skynsamlegt væri að selja fasteignir spítalans og „ná þannig inn jafnvel tugum milljarða strax sem hægt væri að nota til þessa að setja uppbyggingu nýs spítala alveg á fullt á nýjum stað.“
Kristján Þór hafnaði þeim hugmyndum í ræðu sinni á ársfundi Landsspítalans nokkrum vikum síðar og sagði það enga spurningu í sínum huga að nýbyggingar Landsspítalans muni rísa við Hringbraut.