Pay Analytics vann Gulleggið í ár og hlýtur í verðlaun eina milljón íslenskra króna. Gulleggið er stærsta frumkvöðlakeppni á Íslandi og er nú haldin í níunda sinn. Í öðru sæti varð Platome líftækni og í því þriðja Zeto. Tíu hugmyndir kepptu til úrslita í keppninni í ár en hátt í 200 umsóknir bárust. Hægt er að kynna sér öll teymin á Gulleggssíðu Kjarnans.
Kjarninn veitti Tipster verðlaun en hugmynd þeirra Óskars Adamssonar, Gunnars Torfa Steinarssonar og Einars Tryggva Leifssonar var valin vinsælasta hugmyndin af almenningi eftir kosningu hér á Kjarninn.is. Almenningi gafst kostur á að kjósa milli hugmyndanna tíu sem kepptu til úrslita í ár.
Tipster er app sem veitir hverjum sem er ráðgjöf í veðmálum um úrslit íþróttaleikja. Þjónustan hefur verið í þróun í meira en ár með það að markmiði að einfalda aðgengi að gróðavænlegri veðmálaráðgjöf.
Icelandic Startups stendur árlega fyrir keppninni í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólan í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Auk aðalverðlaunanna voru veit peningaverðlaun fyrir annað og þriðja sætið að upphæð 500.000 og 300.000 krónum. Þá voru veitt aukaverðlaun í ýmsum flokkum.
Markmiðið með keppninni er að hjálpa einstakklingum að láta hugmyndir sínar verða að veruleika. Gulleggið hefur verið stökkpallur fyrir mörg fyrirtæki sem hafa náð langt og stækkað eftir þátttöku. Má þar til dæmis nefna Meniga, Clara, Radiant Games og Pink Iceland.