Landsbankinn hefði átt að standa öðruvísi að sölunni á hlut sínum í Borgun en gert var. Setja hefði átt hlutinn í opið söluferli og rökstuðningur bankans fyrir því að það hafi ekki verið gert er ófullnægjandi. Leiðin sem var valin olli Landsbankanum tjóni og skerti bæði traust og trúverðugleika bankans. Það sé mjög alvarlegt mál. Þetta er álit Bankasýslu ríkisins, sem fer með eignarhlut ríkisins í Landsbankanum, sem kynnt var á fundi fjárlaganefndar í morgun. Frá þessu er greint á mbl.is.
Bankasýslan hefur enn fremur birt bréf sem hún sendi til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um Borgunarsöluna á vef sínum. Þar segir að það sé niðurstaða Bankasýslunnar að „sölumeðferðin hafi varpað verulegum skugga á árangur Landsbankans undanfarin misseri og að fagleg ásýnd bankans og stjórnenda hans hafi beðið hnekki.[...]Mikilvægt er að Landsbankinn endurheimti traust eigenda sinna, viðskiptavina og fjárfesta sem og almennings í landinu. Af þeim þeim sökum telur Bankasýsla ríkisins að bankaráð Landsbankans verði að grípa til viðeigandi ráðstafana til að endurheimta það traust sem bankinn tapaði vegna sölumeðferðarinnar. Fer stofnunin fram á að hluthöfum í Landsbankanum hf. verði hið fyrsta gerð grein fyrir því með hvaða hætti bankaráðið telur rétt að bregðast við og ekki siðar en tveimur vikum fyrir aðalfund sem fram fer þann 14. apríl nk."
Landsbankinn sendi í kjölfarið frá sér tilkynningu þar sem bankinn sagði að hann myndi svara Bankasýslunni innan þess frests sem gefinn hefur verið og að svarið verði birt opinberlega. Í tilkynningunni kemur einnig fram að Fjármálaeftirlitið muni birta álit sitt á sölunni innan nokkurra daga.
Umfangsmikil umfjöllun um söluna á Borgunarhlutnum
Kjarninn hóf umfjöllun um sölu Landsbankans á 31,2 prósent hlut sínum í Borgun fyrir 2,2 milljarða króna í lok nóvember 2014. Þá upplýsti hann, í fréttaskýringu eftir Magnús Halldórsson, að hluturinn hefði verið seldur bakvið luktar dyr og hvaða fjárfestar það höfðu verið sem keyptu hlutinn. Magnús hlaut blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir rannsóknarblaðamennsku vegna umfjöllunar um Borgunarsöluna í byrjun mars. Ritstjórn Kjarnans hafði verið tilnefnd til sömu verðlauna árið áður fyrir umfjöllun sína um söluna á hlut Landsbankans í Borgun.
Í kjölfarið sýndi Kjarninn meðal annars fram á að miðað við hefðbundna mælikvarða sem fjárfestar styðjast við í fjárfestingum hafi verðið sem greitt var fyrir verið lágt, hvort sem miðað er við fyrirtæki erlendis eða skráð fyrirtæki á Íslandi. Kjarninn skoðaði einnig ítarlega eigendastefnu ríkisins þegar kemur að eignarhlutum í bönkum, og hvort salan á eignarhlutnum, bak við luktar dyr, samræmdist henni. Enn fremur voru skrifaðar samantektir um fyrri viðskipti og samkeppnissjónarmið sem meðal annars ítarlega um eigendastefnu ríkisins þegar kemur að eignarhlutum í bönkum, og hvort salan á eignarhlutnum, bak við luktar dyr, samræmdist henni.
Hinn 29. apríl í fyrra var síðan frá því greint að nýir eigendur Borgunar hefðu notið góðs af viðskiptunum nokkrum mánuðum fyrr, en samþykkt var að greiða 800 milljónir til hluthafa í arð, í fyrsta skipti frá árinu 2007. Þetta vakti upp spurningar, meðal annars á hinu pólitíska sviði, um hvort hluturinn hefði verið seldur á undirverði.
Hálfum mánuði síðar, var síðan greint frá því að Landsbankinn hefði auglýst til sölu lítinn eignarhlut í Borgun, sem hann eignaðist við yfirtöku á Sparisjóði Vestmannaeyinga, samtals 0,41 prósent hlut. Í þetta skiptið var ákveðið að hafa söluferlið opið, en bankaráð Landsbankans, með Tryggva Pálsson sem formann, hafði þá viðurkennt mistök við söluna á eignarhlutnum í Borgun, og að betra hefði verið að selja hlutinn í opnu söluferli. Kom þetta fram í ræðu hans á aðalfundi bankans.
Landsbankinn neitaði að gefa upp söluverðið á 0,41 prósent hlutnum í fyrstu, en upplýsti svo um það í janúar á þessu ári, þegar salan var aftur í brennidepli. Þá höfðu Morgunblaðið og 365 miðlar fjallað ítarlega um innra virði Borgunar, meðal annars eftir að upplýsingar komu fram um það að félagið myndi hagnast verulega á því að fá hlutdeild í alþjóðlegum viðskiptum VISA Europe og VISA Inc.
Hér er hægt að lesa ítarlega samantekt á helstu staðreyndum Borgunarmálsins.