Félagi sem tekur við þeim eignum sem ríkið fær vegna
stöðugleikaframlags gömlu bankanna mun verða slitið fyrir árslok 2018. Þetta
kemur fram í breytingartillögu sem meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur
lagt fram. Í nefndaráliti sem fylgir breytingartillögunni segir að við
umfjöllun fyrir nefndinni hafi komið fram að fjármála- og efnahagsráðuneytið,
sem félagið mun heyra undir, áætli að félagið nái að fullnusta 80 prósent
þeirra verðmæta sem það mun fá innan 18 mánaða. Þar segir enn fremur: „Erfitt
er að áætla nákvæmlega hvenær verkefnum félagsins verður að fullu lokið en gera
má ráð fyrir að þegar verðmætin sem eftir standa verða það lítil, eða þess
eðlis að þau réttlæti ekki lengur áframhaldandi starfsemi sérstaks félags,
verði það lagt niður.[..]Meiri hlutinn leggur því til viðbótarbreytingu við
frumvarpið sem felur í sér að störfum félagsins verði lokið og félaginu slitið
fyrir 31. desember 2018.
Borgunarmálið hafði áhrif
Kjarninn greindi frá því í byrjun mars að þær eignir sem íslenska ríkið mun fá afhent sem stöðugleikaframlag frá slitabúum föllnu bankanna, utan Íslandsbanka, muni ekki renna til félags í eigu Seðlabanka Íslands. Þess í stað munu þær fara til félags sem mun heyra undir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Þetta kom fram í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar við breytingartillögu á frumvarpi um stöðugleikaframlag.
Ein af ástæðunum fyrir því að þrýst var á um þessar breytingar var hið svokallaða Borgunarmál, þar sem hlutur ríkissbankans Landsbankans í greiðslukortafyrirtækinu Borgun var seldur á bakvið luktar dyr til hóps stjórnenda fyrirtækisins og meðfjárfesta þeirra. Síðar kom í ljós að virði hlutarins var margfalt meira en það var áætlað við söluna. Bankasýsla ríkisins hafnaði á föstudag allri málsvörn stjórnenda og bankaráðs Landsbankans í málinu.
Verður risastórt félag
Um verður að ræða risastórt félag. Virði eignanna sem munu renna inn í það, sem afhentar voru ríkinu í stöðugleikaframlögum slitabúa föllnu bankanna, verður á bilinu 60 til 80 milljarðar króna. Félagið sjálft mun ekki eiga eignirnar heldur ríkið. Það mun fullnusta þær og þegar búið verður að umbreyta þeim í laust fé mun það undantekningarlaust renna inn á lokaðan reikning í Seðlabankanum.
Allt hlutafé í Íslandsbanka, sem er stærsta einstaka stöðugleikaframlag föllnu bankanna, mun renna til Bankasýslu ríkisins,ekki inn í hið fyrirhugaða eignarumsýslufélag. Aðrar eignir sem ríkinu verða afhentar munu hins vegar rata þangað.
Gert er ráð fyrir því að 150 milljónum króna verði varið í að stofna félagið, meðal annars vegna ráðgjafar í tengslum við mat, auglýsingar, lögfræðiþjónustu „og þar fram eftir götunum“.