Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir vinnubrögð Framsóknarflokksins vegna uppbyggingu nýs Landsspítala ekki boðleg. Hann gagnrýndi þau harðlega í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 í morgun. Kristján Þór sagði alveg öruggt að Landspítalinn muni verða við Hringbraut, þar sem uppbygging hans stendur nú yfir. Alþingi hafi tekið þá ákvörðun með lögum árið 2010, sem síðan var aftur staðfest í lögum árið 2013.
Í viðtalinu sagði heilbrigðisráðherra að hann hefði fyrst heyrt af hugmyndum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um staðsetningu Landsspítalans á Vífilstöðum í Garðabæ á föstudag í fjölmiðlum. „Fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins heyrði það sömuleiðis í fyrsta skipti á föstudaginn. Þetta eru ekki vinnubrögð til fyrirmyndar bara svo það sé sagt það er einfaldlega mín skoðun.“
Aðspurður sagði Kristján Þór að í þessum orðum fælist bæði hörð gagnrýni á hann sjálfan og samstarfsflokkinn, Framsóknarflokkinn. „Við eigum bara að vinna með öðrum hætti heldur en þessum.“
Kristján Þór segir það ekki boðlegt í sínum huga þegar svona stórt mál sé undir að vinna með þessum hætti. „Við sjáum þess ágætlega stað í því ákalli sem að almenningur í þessu landi er að senda stjórnmálum ekki bara ríkistjórninni heldur Alþingi öllu. Áttatíu og fimm þúsund manns eru búin að kalla eftir því að við stöndum betur vörð um heilbrigðismálin í þessu þjóðfélagi, þá er það ekki boðlegt í mínum huga að við skulum bera hlutina fram svona eins og við erum að gera og ég fría mig sjálfan ekki ábyrgð í þeim efnum.“
Hörð viðbrögð frá forstjóra Landsspítalans
Fram kom í þættinum Vikulokunum á Rás 1 um helgina að Sigmundur Davíð ræddi hvorki við Kristján Þór né stjórnendur Landsspítalans áður en að opinberaði þann vilja sinn á föstudag að byggja nýjan Landsspítala við Vífilsstaði í Garðabæ í stað þess að hann verði byggður við Hringbraut, þar sem spítalinn stendur í dag. Þetta sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landsspítalans, í þættinum,
Sigmundur skrifaði grein á vefsíðu sína á föstudag þar sem hann lýsti yfir þeim vilja sínum að stjórnvöld skoði hvort ekki sé best að ráðast í byggingu nýs Landspítala við Vífilsstaði í Garðabæ. Í Morgunblaðinu í sama dag var rætt við bæjarstjórann í Garðabæ um möguleikann á uppbyggingu Landspítala við Vífilsstaði. Bæjaryfirvöld þar segjast reiðubúin í samstarf um byggingu nýs spítala þar, og hægt sé að liðka fyrir málinu á ýmsan hátt.
Sigmundur Davíð sagðist í grein sinni vera mjög jákvæður gagnvart þessari hugmynd. „Að mínu mati ber stjórnvöldum að bregðast við þessu tilboði Garðabæjar, taka því fagnandi og skoða hvort ekki sé best, í ljósi allra aðstæðna að ráðast í byggingu nýs Landspítala við Vífilsstaði. Með því væri hægt að byggja spítalann hraðar, á hagkvæmari hátt og miklu, miklu betur.“
Hann sagði einnig að margt muni vinna með ef spítalinn verði byggður á nýjum stað. Ekki bara staða ríkissjóðs sem hafi batnað. „Verðmæti fasteigna og lóða í miðbæ Reykjavíkur hefur hækkað gríðarlega frá því að síðast var lagt mat á staðsetningu spítalans. Með því að selja húsnæði og lóðir gætu ríki og borg náð tugmilljarða tekjum. Þessar tekjur gæti ríkissjóður nýtt til að standa straum af umtalsverðum hluta byggingarkostnaðar nýs spítala.“
Hægt væri að selja húsnæði og lóðir og nýta fjármagn strax til að flýta fyrir framkvæmdum á nýjum stað þótt spítalinn myndi ekki flytja strax. „Einnig gæti ríkið veitt öðru fjármagni, t.d. arði úr bönkunum í spítalabygginguna þar til tekjur af sölu eigna við Hringbraut skiluðu sér.“ Aðrar leiðir komi til greina en hvaða leið sem farin yrði „myndu tugir milljarða skila sér í ríkissjóð við það að færa spítalann. Peningar sem ekki yrðu til ella.“ Þá peninga mætti nýta í aðra innviðauppbyggingu, ekki síst á landsbyggðinni.
Páll brást við skrifum forsætisráðherra með pistli á heimasíðu Landsspítalans samdægurs þar sem hann sagði m.a. :„Við þessar aðstæður er algerlega óþolandi að heyra enn úrtöluraddir um uppbyggingu Landspítala við Hringbraut. Hér er alvörumál á ferðinni sem snýst um öryggismál allra landsmanna. Eftir 15 ára yfirlegu hefur staðsetning spítalans verið ákveðin og þeir sem kjósa að hleypa þessu máli upp nú þegar framkvæmdir eru hafnar og málinu hefur verið siglt í höfn verða að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni.“