Tæplega 53 prósent Íslendinga myndu kjósa Hillary Clinton sem forseta Bandaríkjanna, ef þeir væru á kjörskrá þar í landi. Á bilinu 4-5 prósent landsmanna myndu kjósa Donald Trump. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnum sem Maskína hefur framkvæmt.
Þar kemur einnig fram að 38 prósent Íslendinga myndu kjósa Bernie Sanders. Af þessu er ljóst að þeir sem sækjast eftir útnefningu Demókrataflokksins vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum, þau Clinton og Sanders, njóta stuðnings rúmlega níu af hverjum tíu Íslendinga sem taka afstöðu í könnun Maskínu.
Konur eru mun líklegri til að styðja Hillary Clinton, 67 prósent kvenna vilja sjá hana sem forseta Bandaríkjanna en 40 prósent karla. Bernie Sanders er hins vegar vinsælli hjá körlum, 46 prósent þeirra segja að þeir myndu kjósa hann en tæplega 30 prósent kvenna. Yngri kjósendur, undir 25 ára aldri, eru hrifnari af Bernie Sanders en þeir eldri af Hillary Clinton.
Því eldri sem Íslendingar eru því meiri er áhugi þeirra á bandarísku forsetakosningunum. Þá eykst áhugi á forvali fyrir kosningarnar einnig með hærri tekjum og menntun.
Alls svöruðu 857 manns könnun Maskínu. Þeir koma úr panelhóp fólks sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Könnunin var gerð dagana 3-9 mars.