Engin gögn innan stjórnsýslunnar njóta 110 ára leyndar í dag. Þetta er haft eftir Eiríki G. Guðmundssyni þjóðskjalaverði á RÚV. Þingflokkur Framsóknarflokksins samþykkti á fundi sínum fyrr í vikunni að leggja fram frumvarp um a aflétta leynd á gögnum sem tengjast uppgjöri á slitabúum föllnu bankanna. Í frétt á vef flokksins er rætt við Ásmund Einar Daðason, þingflokksformann Framsóknarflokksins, sem segir að frumvarpið snúi að afnámi „110 ára reglunnar er varðar aðgang að gögnum sem varða ákvarðanir stjórnsýslunnar." Þjóðskjalavörður staðfestir hins vegar við RÚV að 110 ára reglan nái ekki yfir nokkur gögn í dag.
110 ára reglan svokallaða er undanþáguregla sem aldrei hefur verið beitt frá því að samþykkt var að setja hana á fyrir tveimur árum síðan. Henni má til að mynda beita ef gögn geyma upplýsingar um einkamálefni einstaklings sem enn er á lífi eða um almannahagsmuni er að ræða. Almennt gildir þó um slík skjöl að þau skuli njóta leyndar í 80 ár.
Umræða um 110 ára regluna spratt í kjölfar þess að ákveðnir þingmenn hófu að kalla eftir því að gögn sem tengjast uppgjöri slitabúa föllnu bankanna og endurreisn bankakerfisins verði gerð opinber. Gögnin, sem koma frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, hafa verið aðgengileg þingmönnum frá því um mitt ár í fyrra, en einungis einn þeirra má skoða þau í einu og þeir mega ekki taka afrit.
Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að formaður og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson, ætli að óska eftir því við fjármála- og efnahagsráðuneytið að trúnaði yfir gögnunum verði aflétt.