Tónlistarmaðurinn Prince, eða Prince Roger Nelson, lést í dag, 57 ára. Það var afþreyingarvefurinn TMZ sem greindi fyrstur frá þessum tíðindum í dag, en aðrir miðlar hafa síðan flutt sömu fréttir. Dánarorsök hefur ekki verið staðfest.
Prince þótti með áhrifamestu tónlistarmönnum Bandaríkjanna, og var afburða gítarleikari, söngvari, lagasmiður og útsetjari. Hann var fjölhæfur, og einstakur þegar kom að lifandi tónlistarflutningi. Töfrandi sviðsframkoma hans heillaði tónlistarunnendur um allan heim, á löngum ferli hans. Hann seldi meira en 100 milljónir eintaka af plötum sínum og gaf út meira en 30 plötur á ferli sínum ýmist undir eigin nafni eða hljómsveita sem hann leiddi.
Eitt hans frægasta lag, var ballaðan Purple Rain, sem kom út á samnefndri plötu 1984. Prince vann fyrir sér sem atvinnutónlistarmaður frá táningsaldri, en gerði sinn fyrsta plötusamning 19 ára. Fyrsta plata hans kom út 1978, For You.