Flugfélagið WOW air hagnaðist um 400 milljónir króna eftir
skatta á fyrsta ársfjórðungi ársins 2016. Tekjur félagsins voru um fjórir
milljarðar króna á tímabilinu, sem er aukning upp á 141 prósent á milli ára.
Tekjur þess á fyrstu þremur mánuðum ársins 2015 voru 1,7 milljarðar króna.
EBITDA-hagnaður var 680 milljónir króna og jókst um einn milljarð króna á milli
ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá WOW air.
Þar segir einnig að flugfélagið hafi flogið með 193 þúsund farþega á fyrstu þremur mánuðum ársins 2016, sem er aukning upp á 119 prósent milli ára. Sætanýting var 88 prósent og framboðnum sætiskílómetrum fjölgaði um 164 prósent. Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, segir að félagið sé mjög ánægt með niðurstöðuna. „Við höfum vaxið hratt og það er ánægjulegt að sjá hversu vel okkur hefur tekist að ná frábærri nýtingu yfir vetrarmánuðina þrátt fyrir meira en tvöföldun á framboði. Persónulega er ég fyrst og fremst þakklátur fyrir hversu góðar móttökur við höfum fengið á Norður-Ameríkuflugi okkar sem og hversu vel WOW teymið hefur haldið utan um þennan mikla vöxt með brosi á vör“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air.“
Rekstrarhagnaður WOW air fyrir árið 2015 nam 1,5 milljörðum króna. Það var umtalsverður viðsnúningur frá árinu á undan þegar flugfélagið tapaði 700 milljónum króna. Tekjur ársins 2015 námu um 17 milljörðum króna sem var 58 prósent aukning miðað við árið 2014 þegar tekjurnar voru 10,7 milljarðar króna. Þá var EBITDA-hagnaður 2,4 milljarðar króna og jókst um 3 milljarða á milli ára.