Landsbankinn hefur sett 23,3 prósent hlut sinn í fjárfestingafélaginu Eyri Invest í opið söluferli. Eyrir á m.a. 29,7 prósent hlut í Marel, sem skráð er í Kauphöll Íslands. Markaðsvirði þess hlutar er um 54,4 milljarðar króna. Óbeinn eignarhlutur Landsbankans í Marel er því metinn á um 12,7 milljarða króna. Hagnaður Marel í fyrra var um átta milljarðar króna og hefur rekstur félagsins gengið afar vel undanfarið.
Salan er þar af leiðandi með verðmætustu eignarsölum sem Landsbankinn hefur ráðist í. Eyrir Invest hefur ekki skilað inn ársreikningi fyrir árið 2015 en í auglýsingu sem Landsbankinn birtir vegna sölunnar í dag kemur fram að eiginfjárhlutfall félagsins, sem á einnig 33,7 prósent hlut í Eyri Sprotum sem fjárfestir í nýsköpunarfyrirtækjum, hafi verið 54,7 prósent um síðustu áramót.
Þar kemur einnig fram að söluferlið sé í „samræmi við stefnu Landsbankans um sölu eigna í eigu bankans og er öllum opið sem teljast hæfir fjárfestar" samkvæmt ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti. Landsbankinn er sem stendur stærsti einstaki eigandi Eyris Invest. Þar á eftir koma feðgarnir Þórður Magnússon (19,6 prósent) og Árni Oddur Þórðarson (17,3 prósent). Árni Oddur er forstjóri Marel í dag en Þórður er stjórnarformaður Eyris Invest.
Eyrir Invest seldi umtalsvert af eignum á árinu 2015. Í júlí var tilkynnt að Eyrir Invest, Arle og meðfjárfestar hefðu gengið frá samkomulagi um sölu á fyrirtækinu Fokker Technologies til bresku iðnaðarsamsteypunnar GKN plc. Söluverð er 706 milljónir evra sem var á þeim tíma jafnvirði um 105 milljarða króna. Eyrir átti 17 prósent hlut í Fokker fyrir söluna.
Í desember var svo greint frá því að Eyrir Invest, Arle Capital Partners og meðfjárfestar þeirra hefðu gengið frá sölu á hollenska félaginu Stork til bandarísku iðnaðarsamsteypunnar Fluor Corporation, eins stærsta verktakafyrirtækis í heimi, fyrir 695 milljónir evra, eða rúmlega 98 milljarða króna á þeim tíma.
Eyrir hafði keypt Stock B.V. ásamt meðfjárfestum sínum árið 2007. Þá rak samsteypan m.a. Fokker Technologies, Stork Tecnical Services og Stork Food Systems en kaup Marel hf. á því síðastnefnda voru meginástæða fyrir aðkomu Eyris Invest að verkefninu.