Novator, fjárfestingafélag í meirihlutaeigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur sett fjarskiptafyrirtækið Nova í söluferli. Fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka sér um ferlið og er áætlað að það taki um tvo til þrjá mánuði. Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Novator, segir að heildarvirði Nova sé ekki undir 15 milljörðum króna í dag. Novator á 94 prósent hlut í fyrirtækinu en stjórnendur þess, m.a. Liv Bergþórsdóttir forstjóri, eiga sex prósent hlut. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Í samtali við blaðið leggur Ragnhildur þó áherslu á að um þreifingar sé að ræða. Það sé ekkert víst að hluturinn verði seldur.
Með mesta markaðshlutdeild á farsímamarkaði
Staðan á þessum markaði hefur breyst hratt á undanförnum árum. Um mitt ár 2008, hálfu ári eftir að Nova hóf starfsemi, var Síminn með 56,6 prósent markaðshlutdeild á farsímamarkaði og Vodafone með 36,4 prósent. Samanlögð markaðshlutdeild fyrirtækjanna tveggja var því 93 prósent. Nú er hún um 62 prósent.
Með sterkustu stöðuna í notkun gagnamagns
Nova er með langsterkustu stöðuna þegar kemur að notkun gagnamagns á farsímaneti. Markaðshlutdeild fyrirtækisins á þeim markaði er 64,6 prósent á meðan að Síminn er með 18,3 prósent og Vodafone með 12,8 prósent. Einungis 4,1 prósent af gagnamagnsnotkun á farsímaneti í fyrra var á meðal viðskiptavina 365.
Þessi notkun segir þó ekki alla söguna. Uppistaðan af gagnamagnsnotkun Íslendinga á sér stað á fastanetinu. Þ.e. Íslendingar reyna frekar að vera með snjalltækin sín tengd fastaneti heima hjá sér og á vinnustöðum frekar en að notast við 3G eða 4G kerfin til að ná sér í gögn. Á fastanetinu er Síminn með mjög sterka stöðu. Alls eru 48,8 prósent allra internettenginga á Íslandi hjá Símanum.
Nova hefur ekki selt internetþjónustu með öðrum hætti en í gegnum farsímakerfi á undanförnum árum. Á því varð breyting í síðasta mánuði þegar að fyrirtækið tilkynnti að það ætlaði að hefja ljósleiðaraþjónustu. Því mun samkeppnin þar aukast til muna á næstunni.
Aftur orðinn á meðal ríkustu manna heims
Björgólfur Thor er aftur orðinn á meðal ríkustu manna heims, samkvæmt lista Forbes, en auðæfi hans eru metin á 1,6 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 208 milljörðum króna. Björgólfur Thor er númer 1.121 á lista Forbes yfir ríkasta fólk heimsins. Hann fór hæst í 249. sæti árið 2007. Eignir Björgólfs Thors eru meðal annars í fjarskiptafélögunum Play í Póllandi og WOM í Chile, auk þess að eiga eignarhluti í félögunum Xantis Pharma og Allergan líkt og áður sagði.
Björgólfur Thor var á barmi gjaldþrots eftir hrun fjármálakerfisins, og í persónulegum ábyrgðum fyrir tugmilljarðaskuldum, en tókst að semja við kröfuhafa sína, halda eignarhlutum í stórum fyrirtækjum, meðal annars Actavis, sem síðan hefur sameinast öðrum félögum og stækkað, og þannig ná vopnum sínum á nýjan leik.