Gagnagrunnur, sem unninn er upp úr Panama-skjölunum svokölluðu, hefur verið opnaður. Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna, ICIJ, opnuðu grunninn klukkan sex í dag. Þar er hægt að nálgast upplýsingar um yfir 200 þúsund aflandsfélög.
Nöfn Íslendinga er að finna í gagnagrunninum, en fjallað hefur verið ítarlega um viðskipta nokkurra þeirra, í umfjöllun Reykjavík Media, Kastljóss RÚV, Stundarinnar og hér á vef Kjarnans.
Gagnagrunnurinn er aðgengilegur á heimasíðu ICIJ, alþjóðasamtaka blaðamanna, og á vef Reykjavik Media.
Gögnin, sem liggja að baki, koma sem kunnugt er frá panömsku lögmannsstofunni Mossack Fonseca, en þeim var leikið til ICIJ.
Fólkið sem tengist þessum félögum kemur frá yfir 200 löndum.
Inn í gagnagrunninum er þó ekki hægt að nálgast skjöl, eða rekja hvaða viðskipti búa að baki félagaeign í gagnagrunninum.