Skuldir heimila lækkuðu um eitt prósent að nafnvirði á síðustu þremur mánuðum ársins í fyrra og námu 84 prósent af vergri landsframleiðslu, sem er 11 prósentum lægra hlutfall en í lok árs 2014. Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabanka Íslands, sem komu út í dag.
Líklegt er að skuldahlutfallið hafi lækkað enn frekar það sem af er þessu ári með auknum efnahagsumsvifum og sakir áframhaldandi áhrifa skuldalækkunaraðgerða stjórnvalda, að því er segir í Peningamálum.
Í janúar síðastliðnum var gengið frá lokauppgjöri milli ríkissjóðs og fjármálafyrirtækja vegna höfuðstólslækkunar fasteignaveðlána með greiðslu eftirstandandi fjórðungshluta aðgerðarinnar. Í lok apríl nam bein uppsöfnuð höfuðstólslækkun fasteignaveðlána um 73,4 milljörðum króna og um 19,7 milljarðar króna hafa verið greiddir inn á lán í gegnum svokallaða séreignarsparnaðarleið, en þá nýtir fólk séreignasparnað sinn til greiðslu inn á fasteignaskuld og fær skattaafslátt á móti.
Eins og Kjarninn greindi frá fyrr í dag, þá gerir Seðlabankinn ráð fyrir meiri hagvexti á þessu ári og því næsta en áður, en jafnframt er spáð meiri verðbólgu. Þetta kemur fram í nýjum Peningamálum, sem komu út samhliða vaxtaákvörðun Seðlabankans í morgun.
Hagvöxtur er talinn hafa verið fjögur prósent á Íslandi í fyrra, samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofunni, og búist er við því að í ár verði hann 4,5 prósent. Það er vegna mikils vaxtar í innlendri eftirspurn og einnig kröftugs útflutningsvaxtar.
Seðlabankinn spáir því jafnframt að hagvöxturinn verði meiri en áður var talið á næsta ári, eða fjögur prósent í stað 3,4 prósenta. Ef þetta gengur eftir verður það þriðja árið í röð sem hagvöxtur á Íslandi er um og yfir fjögur prósent. „Svo mikill hagvöxtur er langt umfram langtímahagvaxtargetu þjóðarbúsins og óhjákvæmilegt að nokkuð hægi á hagvexti á næstu árum að öðru óbreyttu.“