Manhattan er vel lýst sem suðupotti mannlífs. Fjölbreytileikinn er áþreifanlegur og mikilfenglegar byggingar, sem ramma inn einn áhrifamesta starfsvettvang í veröldinni. Á Manhattan-eyju búa ríflega 1,6 milljónir manna og svæðið er oft kallað höfuðvígi menningar- og fjármálalífs heimsins, hvorki meira né minna.
Hjarta kapítalismans
Stærstu fjármálastofnanir heimsins eru með höfuðstöðvar sínar á Manhattan og Seðlabankinn í New York – stærsta undirstofnun Seðlabanka Bandaríkjanna – einnig. Oft er talað um fjármálakerfi borgarinnar undir nafninu Wall Street, sem er tiltölulega lítið stræti í fjármálahverfi borgarinnar. Þar í grennd er Kauphöllin í New York, og má segja að hjartað í þessu sögufræga einkenni markaðsbúskapsins í heiminum sé sýnilegt í Charging Bull nautsstyttunni eftir Arturo Di Modica. Hún stendur í Bowling Green Park í fjármálahverfinu, og er eitt helsta einkenni kapítalískrar ímyndar Manhattan.
Í lok árs 2014 voru störf í fjármálageiranum á Manhattan ríflega 163 þúsund, sem nam um fimm prósent af heildarstarfafjölda í borginni, í einkageiranum. Launin voru hinsvegar um 22 prósent af heildarlaunagreiðslum, með meðallaun á ári upp á 360 þúsund Bandaríkjadali, eða sem nemur um 3,7 milljónum króna á mánuði.
Söfn, garðar og mannfjöldi
Í grófum dráttum dreifist byggðin á Manhattan þannig að um 700 þúsund manns búa vestanverðri eyjunni, þar af 400 þúsund í efrihlutanum (Upper West). Austanmegin eru um 500 þúsund íbúar, þar af um 370 þúsund í efrihlutanum (Upper East). Á neðsta hluta Manhattan (Lower Manhattan), eru um 100 þúsund íbúar. Í Harlem, sem tilheyrir Manhattan hverfinu, eru íbúar 335 þúsund. Fjölgunin hefur mest verið á efri hluta eyjunnar.
Íbúarnir á eyjunni eru hins vegar aðeins lítill hluti af þeim fjölda sem heldur til á eyjunni. Svæðið er eitt vinsælasta fsvæði heimsins fyrir ferðamenn, en samtals heimsækja um 50 milljónir manna New York borg á hverju ári, ef innlendir og erlendir ferða menn eru taldir. Flestir þeirra heimsækja Manhattan.
Á eyjunni eru 32 opinber söfn, og mörg þeirra eru meðal sögufrægasta safna heimsins, eins og nýlistasafnið MoMA. Þá eru einnig fjölmargir opinberir garðar á eyjunni, þrátt fyrir að þétt sé byggt. Central Park, inn á miðri eyjunni, er þeirra langsamlega stærstur, en fleiri garðar á eyjunni njóta einnig mikilla vinsælda. High Line Park, Riverside Park, Morningside Park, Bryant Park og Union Square Park, svo einhverjir séu nefndir. Samtals eru 30 garðar á Manhattan, og leggja borgaryfirvöld mikla áherslu á að halda þeim við og bjóða upp á aðstöðu til afþreyingar.
Upp og niður stéttarstigann
Manhattan er ekki síður þekkt fyrir að vera staður mikilla öfga, en miðstöð viðskipta og menningar. Á eyjunni býr fólk úr öllum stéttum, þó sífellt sé að verða erfiðara fyrir fólk með lág laun að búa á eyjunni. Húsnæðiskostnaður hefur farið vaxandi, og þá er einnig mikil samkeppni um húsnæði, enda pláss takmarkað. Samkvæmt tölum New York borgar voru rúmlega 60 þúsund heimilislausir í New York borg í fyrra, þar á meðal 23 þúsund börn. Stærstur hluti þess hóps heldur sig utan Manhattan, en talið er að um 14 þúsund manns dvelji á Manhattan án þess að eiga heimili.
Innan um glæsileg háhýsi, hótelbyggingar og sögufrægar stofnanir blómstrar mannlíf á kaffihúsum, gallerýum, veitingastöðum, verslunum og fleiri stöðum þar sem fólk úr öllum áttum kemur saman.
Borgin sem aldrei sefur, er stundum sagt um New York. Það á svo sannarlega við um miðpunkt hennar á Manhattan. Þrátt fyrir að vera þriðja fjölmennasta hverfi borgarinnar, á eftir Queens og Brooklyn (Bronx og Staten Island eru hin sem talin eru til fimm aðalhverfa borgarinnar), þá er til þess horft sem höfuðvígis þar sem þræðirnir liggja til valdafólks í atvinnulífi, stjórnmálum og menningarlífi. Svæðið hefur birst fólki í gegnum afþreyingariðnaðinn áratugum saman, og virðist því stundum standa því nærri.
Atvinnuleysi mælist um þessar mundir 5,2 prósent á Manhattan, litlu meira en landsmeðaltalið.