Fasteignaverð hefur farið hækkandi að undanförnu og er fyrirsjáanlegt að það muni hækka mikið á næstunni. Í sögulegu tilliti hefur það oft fylgt launavísitölunni og kaupmætti. Hann hefur aukist um 11,6 prósent á tólf mánuðum, og laun hækkað mikið. Á sama tíma hefur verðbólga haldist niðri, en hún mælist nú aðeins 1,6 prósent, sem telst lítið á íslenskan mælikvarða.
Spár sérfræðinga á markaði gera ráð fyrir að fasteignaverð muni hækka um 20 prósent frá deginum í dag og fram til ársins 2018.
Ástæðan er tiltölulega einföld. Það er ekki nægilega mikið framboð af íbúðarhúsnæði, sérstaklega af litlum og meðalstórum íbúðum, á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir að uppbygging sé nú þó nokkur, þá er hún ekki nægilega mikil til að mæta aukinni eftirspurn. Byggja þarf þrjú til fjögur þúsund íbúðir á ári, næstu árin, til að mæta eftirspurninni samkvæmt algengum spám. Í dag er uppbyggingin mikið minni.
En það er ekki víst að það dugi til. Þar kemur ferðaþjónustan til sögunnar.
Hún hefur sett aukna pressu á markaðinn, enda eru meira tvö þúsund íbúðir í útleigu fyrir ferðamenn í Reykjavík, sem annars væru til búsetu fyrir íbúa. Airbnb er sérstaklega áberandi, en fleiri síður einnig, eins og HomeAway.
Erfitt er að finna íbúðir til leigu, til lengri tíma. Leiguverð hefur hækkað nokkuð á síðustu tólf mánuðum, eða um 6,2 prósent.
Þetta er að einhverju leyti fyrirsjáanleg staða, en það ætti að vera öllum sem hafa aðkomu að fasteignamarkaðnum - sveitarfélögum, ríkinu, stéttarfélögum og lánastofnunum þar á meðal - mikið umhugsunarefni hvernig staða getur skapast hér á landi á næstu árum. Áframhaldandi vexti í ferðaþjónustu er spáð, allt að 30 prósent á ári næstu tvö árin. Það þýðir fjölgun um 300 til 400 þúsund ferða menn á ári. Árið 2010 komu innan við 500 þúsund ferðamenn til landsins, en þeir verða líklega um 1,6 milljónir í ár.
Viðvarandi vöntun á íbúðum getur haft slæm áhrif á mannauðinn í landinu, þar sem fólk velur þá frekar að flytja úr landi en að búa við óstöðugleika þegar kemur að húsnæði. Fólk getur ekki boðið fjölskyldunni upp á það til lengdar.
Frá hruni hafa um átta þúsund fleiri Íslendingar flutt frá landinu en til þess, og gæti ójafnvægið ýtt enn frekar undir straum Íslendinga úr landinu. Það er ekki gott, og óþarfi að gera lítið úr því þó hagtölurnar sýni mikinn vöxt.
Vonandi munu stjórnmálaflokkarnir taka stöðuna á fasteignamarkaðnum alvarlega, og velta því fyrir sér hvernig megi ná jafnvægi á honum, á meðan ferðaþjónustan vex jafnt og þétt. Stjórnmálamenn leysa ekki öll vandamálin, en góð vinna þeirra við stefnumörkun og löggjöf getur verið lykillinn að því að hraða skynsamlegri uppbyggingu.