Innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar formar nú heildstæða úttekt á fylgni við siðareglur borgarfulltrúa og reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar . Hallur Símonarson, innri endurskoðandi borgarinnar, segir að nú sé verið að greina umfang verkefnisins.
„Verkefnið er þannig vaxið að Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar mun horfa á það í heild sinni og kanna hlítni við þessar reglur sem borgarstjórn setti sér fyrir um átta árum. Við munum þannig leggja upp úr því að fara yfir þetta allt sem heild,” segir Hallur í samtali við Kjarnann.
Forsætisnefnd borgarstjórnar ákvað þann 5. apríl síðastliðinn að fela innri endurskoðanda að athuga hvort borgarfulltrúarnir Júlíus Vífill Ingvarsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir hafi brotið reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa, hvort hafi fylgt trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar og hvort siðareglur borgarfulltrúa hafi verið brotnar. Þetta var gert í kjölfar uppljóstrana Kastljóss og Reykjavik Media um tengsl Júlíusar og Sveinbjargar við aflandsfélög, en hvorugur borgarfulltrúanna höfðu greint frá þeim í hagsmunaskráningu borgarfulltrúa. Þau komu bæði fyrir í Panamaskjölunum, en Júlíus sagði af sér sem borgarfulltrúi eftir að Kastljós og Reykjavik Media fjölluðu um málið og Sveinbjörg fór í leyfi.
Upplýsingagjöf kjörinna fulltrúa yfirfarin
Hallur segir að kjarninn í skoðuninni séu siðareglur og reglur á skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og aukastörfum borgarfulltrúa, en jafnframt þurfi, í samstarfi við regluvörð borgarinnar, að yfirfara upplýsingagjöf kjörinna fulltrúa varðandi innherjaskrá Reykjavíkurborgar sem útgefanda á skipulegum verðbréfamarkaði.
„Þessar reglur eru fókusinn hjá okkur. Það er verið að skoða reglurnar, hvort skerpa þurfi á þeim með einhverjum hætti og skoða hvernig kjörnum fulltrúum hefur gengið að fylgja þeim.” segir hann. „Þetta er væntanlega svipað og Alþingi stendur frammi fyrir en því hefur verið beint til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að skoða þessar reglur hjá ríkinu.“ Hann vill engan tímaramma setja á verkefnið að svo stöddu.
Fram kemur í Panamaskjölunum að Sveinbjörg er með tengsl við tvö aflandsfélög, annað skráð á Tortóla og hitt á Panama. Hún sagðist í kjölfar fregna af tengslum hennar styðja að farið væri í rannsóknarvinnu af innri endurskoðanda.
Miklir eftirmálar
Júlíus Vífill stofnaði aflandsfélag í Panama árið 2014. Það mál vatt töluvert upp á sig, en fyrst sagði Júlíus að um hefði verið að ræða fyrirtæki utan um eftirlaunasjóð sinn. Systkini hans stigu þó fram í kjölfarið og sögðu að um væri að ræða lífeyrissjóð foreldra þeirra og sökuðu hann um að fela hann fyrir þeim. Júlíus sakaði systkini sín á móti um að hafa dregið að sér fé.
Einnig var fjallað um málefni Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og tengsl hennar og eiginmanns hennar, Hallbjarnar Karlsssonar, við aflandsfélög. Þau eru skráð fyrir félaginu Ravenna Partners á Tortóla. Allt hlutafé Ravenna var skráð á þau hjónin í ágúst 2005. Félagið var alla tíð eignalaust. Þorbjörg Helga var kjörin í borgarstjórn 2006 og sat sem borgarfulltrúi til ársins 2014. Hún skráði tengslin ekki í hagsmunaskrá.
Í bókun forsætisnefndar 5. apríl segir að „í ljósi frétta af aflandsfélögum í eigu borgarfulltrúa sem fluttar hafa verið að undanförnu telur forsætisnefnd brýnt að til þess bærir aðilar kanni málin til hlítar. Því er þess farið á leit við innri endurskoðun og regluvörð borgarinnar að kannað verði hvort borgarfulltrúarnir Júlíus Vífill Ingvarsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir hafi farið á svig við gildandi lög og reglur um skyldur og hæfi borgarfulltrúa, hvort reglum um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar hafi verið fylgt og hvort siðareglur borgarfulltrúa hafi verið brotnar. Að sama skapi er óskað eftir því að siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga taki málið til skoðunar í samræmi við hlutverk nefndarinnar og 29. gr. sveitarstjórnarlaga.“