Eggert Skúlason hættir sem ritstjóri DV eftir útgáfu blaðsins á morgun. Þetta staðfestir hann við mbl.is.
Eggert segir þar að það sé sameiginleg ákvörðun hans og eigenda Vefpressunar, útgáfufélags DV, að hann hætti sem ritstjóri. Eftir sumarfrí muni hann koma til með að vinna að verkefnum fyrir útgáfuna, en það sé ekki alveg ljóst hvaða verkefni það verði.
Þegar Kjarninn náði tali af Eggerti vildi hann ekki tjá sig. „Veistu, ég nenni ekki að tala við þig. Mér finnst þú ekki vera alvöru blaðamaður,“ sagði hann.
Eggert var ráðinn ritstjóri DV ásamt Kolbrúnu Bergþórsdóttur í lok árs 2014. Það gerðist í kjölfar þess að Vefpressan eignaðist blaðið. Eggert Skúlason starfaði á árum áður við fjölmiðlun, meðal annars á Stöð 2. Áður en hann varð ritstjóri DV hafði hann rekið eigið almannatengslafyrirtæki og meðal annars starfað fyrir kröfuhafa föllnu bankana. Fyrirtæki Eggerts. Franca ehf., var líka ráðið til að gera úttekt á DV eftir að nýir eigendur tóku við fjölmiðlinum haustið 2014. Starfsmenn DV sendu í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem þeir sögðu úttektina illa unna og að hún virtist að mestu byggja á skoðunum úttektarhöfunda sjálfra.
Björn Ingi Hrafnsson er útgefandi DV. Félag í eigu Björns Inga tók nýverið yfir eignarhluti Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns og félagsins Tryggva Geirs ehf., í eigu Þorsteins Guðnasonar, í Pressunni ehf., aðaleiganda DV og fleiri miðla. Félagið, sem heitir Kringueignir ehf., er nú skráð fyrir 31,85 prósent hlut í Pressunni. Önnur félög sem eru í eigu Björns Inga og Arnars Ægissonar, framkvæmdastjóra Pressunnar, eiga 39,15 prósent í fyrirtækinu. Því eiga félög í eigu Björns Inga nú 71 prósent hlut í Pressunni, sem á 84,23 prósent hlut í DV.
Kröfum var breytt í hlutafé
Haustið 2014 áttu sér stað mikil átök um yfirráð yfir DV. Feðgarnir Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson, ásamt samstarfsmönnum sínum, höfðu þá átt og stýrt DV um nokkurt skeið en fengið fjárhagslega fyrirgreiðslu víða til að standa undir þeim rekstri, meðal annars hjá Gísla Guðmundssyni, fyrrum eiganda B&L. Þeim kröfum var síðan breytt í hlutafé sem dugði til að taka yfir DV. Í átökunum kom maður að nafni Þorsteinn Guðnason fram fyrir hönd þeirra krafna.
DV var skömmu síðar selt til hóps undir forystu Björns Inga Hrafnssonar. Kaupin voru gerð í nafni félags sem heitir Pressan ehf. Kaupverðið hefur ekki verið gert opinbert en Kjarninn greindi frá því fyrr á þessu ári að skuldir félagsins hefðu hækkað umtalsvert á árinu 2014. Langtímaskuldir sem voru engar í árslok 2013 voru orðnar 148 milljónir króna í lok árs 2014. Auk þess tvöfölduðust skammtímaskuldir Pressunnar og voru orðnar 124 milljónir króna í lok árs. Því skuldaði félagið samtals 272 milljónir króna í lok árs 2014, sem er fjórum sinnum meira en þær 68 milljónir króna sem félagið skuldaði í lok árs árið áður.
Engar opinberar upplýsingar eru til um hvaðan umrædd lán komu að öðru leyti en það að Björn Ingi Hrafnsson hefur upplýst um að hluti af kaupverðinu á DV hafi verið greitt með seljendaláni frá þeim sem breyttu kröfum sínum í hlutafé í miðlinum þegar hann var tekinn yfir haustið 2014.