Sepp Blatter, fyrrverandi forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA, Jerome Valcke, fyrrverandi aðalritari sambandsins, og Markus Kattner, fyrrverandi fjármálastjóri þess, eru sagðir hafa hækkað launa- og bónusgreiðslur til sín um 55 milljónir punda, um tíu milljarða króna, á síðustu fimm árum. Þessu halda lögmenn FIFA fram. Blatter var úrskurðaður í sex ára bann frá knattspyrnu af siðanefnd FIFA í desember vegna spillingarmála og Valcke var úrskurðaður í tólf ára bann í febrúar. Kattner, sem hafði verið fjármálastjóri FIFA í 13 ár, var svo rekinn í lok maí. Frá þessu er greint á vef The Guardian.
Lögmenn FIFA segja að þeir hafi sannanir fyrir því að mennirnir þrír hafi með samræmdum aðgerðum auðgað sjálfa sig með því að hækka við sig laun, greiða sér svokallaða heimsmeistarakeppnisbónusa og aðrar hvatatengdar greiðslur sem samtals nemi 55 milljónum punda á fimm ára tímabili.
Lögreglan í Sviss réðst í húsleitir í höfuðstöðvum FIFA í gær til að safna gögnum í sakamálum gegn Blatter og Valcke. Líklegt þykir að slíkt mál verði einnig höfðað gegn Kattner. Bæði Blatter og Valcke eru grunaðir um að hafa misfarið með fé FIFA.