Samgönguáætlun fyrir árin 2015-2018 er vanfjármögnuð með tilliti til þarfa samgöngukerfisins hér á landi. Þannig er einróma áliti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis lýst í drögum að ályktun nefndarinnar um samgönguáætlunina. Þeir gestir sem komu fyrir nefndina til að veita sitt álit eru einnig á sama máli.
Samgönguáætlunin sem gilda á frá 2015 til 2018 hefur enn ekki verið samþykkt en stefnt er að því að klára samgönguáætlunina þegar þing kemur saman í haust. Þingi var frestað um mánaðarmótin og mun ekki koma saman aftur fyrr en 15. ágúst. Þingnefndir störfuðu hins vegar áfram í viku eftir að þingi var frestað. Á meðan fjögurra ára samgönguáætlun er ekki í gildi ræður samgönguáætlun fyrir árin 2011 til 2022.
Í drögunum sem Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, sendi frá sér fyrir helgi segir að nefndin og gestir hennar hafi verið einróma um að áætlunin væri vanfjármögnuð. Varla er hægt að halda samgöngukerfinu í viðunandi ástandi miðað við þau fjárframlög sem lögð eru til. Í tilkynningu Höskuldar segir að unnið verði að því í sumar að samræma áætlunina við fyrirliggjandi ríkisfjármálaáætlun.
Nefndin hvetur stjórnvöld til að vera viðbúin fyrirsjáanlegum breytingum á tekjustofnum til samgöngumála. „...einnig [var] fjallað um fjármögnun kerfisins til framtíðar en nokkur óvissa ríkir um framtíð markaðra tekjustofna sem fjármagna samgönguáætlunina,“ segir jafnframt í drögunum. Er þar til dæmis vísað til áætlana um orkuskipti í samgöngum og vega minni heimtur af skattlagningu á eldsneyti þungt eða um 50 prósent. Með breyttri orkunotkun munu tekjustofnarnir að óbreyttu rýrna. „Ekki er þó ljóst hversu hratt það muni gerast.“
Til þess að mæta þessari vanfjármögnun er telur nefndin rétt að skoða hvort hækka eigi gjaldskrár svo markaðar tekjur til Vegagerðarinnar rýrni ekki enn frekar. Gjaldskrárnar hafi ekki fylgt verðlagsþróun sem rýrt hefur tekjur Vegagerðarinnar mikið. „Ef gjaldskrár markaðra tekna hefðu fylgt verðlagi líkt og flestar aðrar opinberar gjaldskrár mundu tekjustofnarnir skila hátt í 23 milljörðum á ári í stað 16 milljarða nú,“ segir í drögunum.
Eyrnamerktar tekjur Vegagerðarinnar eru meðal annars af sérstöku vörugjaldi á bensín, olíugjaldi, þungaskatti og af leyfisgjöldum flutninga- og leigubifreiða. Þá er Vegagerðinni árlega ráðstafað framlag úr ríkissjóði til viðbótar við markaðar tekjur.
Lagt er lagt til að röskum 120 milljörðum króna verði varið í framkvæmdir í samgöngumálum á árunum 2015 til 2018. Það er mun hærri upphæð en lagt var til fyrir ári síðan þegar lagt var til að 103 milljarðar yrðu ráðstafaðir til samgöngumála.
Framlög til samgöngumála hafa á árunum eftir hrun verið lægri en almennt hefur þekkst hér á landi. Samkvæmt drögunum að nýrri samgönguáætlun er gert ráð fyrir að útgjöldin hækki örlítið og verið 1,3 prósent af vegri landsframleiðslu næstu tvö ár. Sögulega séð hefur hlutfallið verið um 1,5 prósent en þegar best lét á árunum fyrir hrun var hlutfallið 2 prósent árið 2008. Mat nefndarinnar er að stefna beri að því að framlögin nemi um 1,5 til 2 prósent af landsframleiðslu.
Öryggi í fyrirrúmi
Mikil áhersa er lögð á umferðaröryggi í drögum nefndarinnar að samgönguáætluninni og forgangsröðun verkefna gerð með öryggismál í forgrunni. „Í nýframkvæmdum og viðhaldsverkefnum ber þannig að horfa til þeirra vega þar sem bæta þarf umferðaröryggi en það er á umferðarmestu vegunum og þar sem ástand vega er orðið mjög slæmt, þar sem eru hættulegir vegarkaflar og þar sem eru einbreiðar brýr,“ segir textanum.
Ekki síst er það vegna aukinnar umferðar erlendra ferðamanna um landið sem nefndin telur brýnt að huga að öryggismálum á vegum. Efla þarf fræðslu og forvarnir gagnvart erlendum ferðamönnum sem aka á bílaleigubílum um landið. Bakslag hafi orðið á síðustu árum vegna fjölda alvarlegra slysa en kostnaður samfélagsins vegna umferðarslysa er gríðarlegur. Er þar vísað í nýlegt rannsóknarverkefni við Háskólann í Reykavík þar sem segir að kostnaðurinn vegna umferðarslysa árið 2015 hafi verið 48 milljarðar króna. Beinn kostnaður heilbrigðiskerfisins er um 930 milljarðar, ef stuðst er við skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá 2012.
„Á fundum nefndarinnar kom fram að nokkur helstu umferðaröryggismál á þjóðvegum landsins væru að breyta skiltum þannig að erlendir ferðamenn skildu þau, aðskilja aksturstefnur á umferðarþungum vegum og vinna að því að fækka einbreiðum brúm,“ segir í drögunum að samgönguáætluninni. Einbreiðar brýr eru 58 prósent allra brúa í þjóðvegakerfi landsins. Á hringveginum er hlutfall einbreiðra brúa 17 prósent.
Þeir þjóðvegir sem breikkaðir verða á næstunni eru Vesturlandsvegur á Kjalarnesi þar sem framkvæmdir hefjast árið 2018, áframhaldandi tvöföldun Reykjanesbrautar, þjóðvegurinn milli Hveragerðis og Selfoss verður breikkaður og aksturstefnurnar aðskildar, breikkun vegarins yfir Hellisheiði verður lokið og vegna fyrirhugaðar uppbyggingar á Miðnesheiði verður Reykjanesbraut tvöfölduð alla leið að flugstöðinni.