Ísland gerði jafntefli, 1 - 1, gegn Portúgal í sínum fyrsta leik á stórmóti í knattspyrnu karla. Birkir Bjarnason skoraði mark Íslands í seinni hálfleik. Nani, framherji Portúgal, hafði skorað mark í fyrri hálfleik. Þetta voru frábær úrslit fyrir Ísland sem er nú í öðru sæti í F-riðli á mótinu, jafnt með Portúgal með eitt stig. Austuríki tapaði fyrr í dag fyrir Ungverjalandi, 2-0. Ungverjar eru því í fyrsta sæti riðilsins.
Hannes Þór Halldórsson var stórkoslegur í íslenska markinu og varði hvað eftir annað öflug skot frá sókndjörfum Portúgölunum. Hannes varði átta sinnum í leiknum.
Íslensku stuðningsmennirnir á vellinum létu gríðarlega vel í sér heyra og yfirgnæfðu portúgölsku stuðningsmennina á vellinum í Saint Étienne. Á Ingólfstorgi safnaðist gríðarlegur fjöldi fólks saman og var setið á nærliggjandi húsþökum og þétt staðið á öllu torginu. Fulltrúar Tólfunar, stuðningsmannaklúbbi íslenska landsliðsins, héldu stemmningunni gangandi þar og var mikið sungið og fagnað.
Lestu meira um EM 2016: Átta hlutir sem þú þarft að vita um EM en þorir ekki að spurja um.
Næsti leikur Íslands er gegn Ungverjalandi á laugardaginn klukkan 16. Leikurinn fer fram í Marseilles í Suður-Frakklandi. Þriðji og síðasti leikur Íslands í riðlakeppni Evrópumótsins verður á miðvikudaginn 22. júní. Sá leikur verður gegn Austurríki í París.