Jo Cox, þingkona verkamannaflokksins í Bretlandi, var myrt í hrottalegri árás þegar hún kom af fundi í kjördæmi sínu í Bristall í dag. Lögreglan handtók 52 ára gamlan karlmann í nágrenni árásarstaðsins í kjölfarið.
Ráðist var á Cox síðdegis í dag og hún skotin og stungin mörgum sinnum. Bráðaliðar og læknir sem komu á vettvang eftir að kall barst úrskurðuðu hana látna á vettvangi.
Lögregla staðfestir að maður, öðru hvoru megin við fimmtugt, hafi særst í sömu árás. Þá rannsakar lögreglan frásögn vitna af hrópum hins grunaða. Hann er sagður hafa hrópað „Britain first“, eða „Bretland fyrst“ á meðan árásinni stóð og vísa þannig í flokk með sama nafni yst á hægri væng breskra stjórnmála.
„Ég heyrði skothvelli og hljóp út og sá einhverjar konur hlaupa af nærliggjandi veitingastað með handklæði,“ segir Graeme Howard í samtali við The Guardian. Hann segist hafa heyrt mann hrópa „Britain first“. „Það voru mikil öskur og hróp áður en lögreglan kom á vettvang. Hann hrópaði „Britain first“ þegar hann gerði þetta og þegar verið var að handtaka hann. Honum var haldið niðri af tveimur lögreglumönnum og hún var flutt burt í sjúkrabíl.“
The Guardian hefur eftir Dee Collins, varðstjóra lögreglunnar í Vestur Yorkskíri, að umfangsmikil rannsókn fari nú fram. Hún staðfestir að vopn hefðu fundist á vettvangi, þar á meðal byssa. Breskir fjölmiðlar segja að árásarmaðurinn sé Thomas Mair en sá býr í húsi sem lögreglan réðst inn í stuttu eftir að árásin átti sér stað í dag.
Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins í Bretlandi, sagði á Facebook síðu sinni eftir að fregnir bárust af árásinni að allir flokksmenn og allir landsmenn væru í uppnámi eftir að hafa heyrt af morðinu á Jo Cox. „Jo lést við að sinna sinni samfélagslegu skyldu í hjarta lýðræðisins okkar, þar sem hún hlustaði á fólkið sem hafði kosið hana til áhrifa,“ skrifar Corbyn.
David Cameron, forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, sagði í yfirlýsingu að Bretar hefðu misst „mikla stjörnu“ í stjórmálum. „Það er réttast af okkur að gera hlé á kosningabaráttunni fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna,“ sagði hann og vísar til atkvæðagreiðslunnar 23. júní um hvort Bretland eigi að ganga úr Evrópusambandinu. Cox var stuðningsmaður þess að Bretar héldu áfram Evrópusamvinnunni.
Jayda Fransen, varaformaður Britain First-flokksins, segir að nú sé verið að kanna fregnirnar innan flokksins. „Við erum í áfalli vegna þessara frétta og getum ekki staðfest neitt, því eins og stendur er þetta orðrómur. Þetta er alls ekki hegðun sem við látum óátalda,“ segir hún.