Kjósi Bretar að ganga úr Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslunni á fimmtudag verður það markmið Íslands að tryggja sambærileg viðskiptakjör við Bretland eins og við höfum nú. Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra í samtali við Kjarnann. Hún segir að engar breytingar verði á samskiptum ríkjanna ef þeir gangi út því það taki að minnsta kosti tvö ár fyrir Breta að semja sig frá Evrópusambandinu. Bretar muni einnig kappkosta við gera viðskiptasamninga við sín helstu viðskiptalönd.
Lilja leggur áherslu á að Bretland sé mikilvægt viðskiptaland fyrir Ísland. Hátt í 20 prósent ferðamanna sem komi hingað séu frá Bretlandi og að 11 prósent af öllum útflutningi Íslands síðustu tvö ár hafi farið til Bretlands. „Það sem liggur náttúrlega fyrir er að Bretland er eitt af okkar allra mikilvægustu viðskiptaríkjum, bæði hvað varðar út og innflutning,“ segir hún. „Þannig að þetta er okkur mikilvægt ríki.“
Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði í samtali við Kjarnann á dögunum að útganga Breta úr ESB gæti haft „feykimikil“ áhrif. Ástæðan er sú, að Bretar myndu þurfa að endurskoða í hvaða farvegi viðskiptasamningar og viðskiptasambönd ættu að vera, í ljósi breyttrar alþjóðapólitískrar stöðu.
Lilja ætlar ekki að taka afstöðu til spurningarinnar sem lögð verður fyrir breska kjósendur á fimmtudaginn, eins og margir kollegar hennar á meginlandi Evrópu hafa gert. Það sé í höndum Breta að greiða atkvæði um framhaldið. Hagsmunir Íslands séu að Evrópa sé sterk, þetta mikilvægasta viðskiptasvæði okkar, og greiðslujöfnuður Íslands arðbær.
„Þetta er fyrst og fremst ákvörðun breskra kjósenda og breskra stjórnvalda,“ segir Lilja. „Við erum ekki lengur umsóknarríki að Evrópusambandinu og ríkisstjórnin telur hagsmunum okkar betur borgið fyrir utan Evrópusambandið. Þannig að við höfum ákveðið að skipta okkur ekki af þessu.“
Í utanríkisráðuneytinu hefur verið gert ákveðið hagsmunamat fyrir Ísland ef af úrsögn Breta verður. Að sögn Lilju er búið að kortleggja hvaða möguleikar væru í stöðunni fyrir Bretland og hvernig staðan í Evrópu verður ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar verður úrsögn. „Það eru auðvitað nokkrir möguleikar þar,“ segir Lilja. „Bresk stjórnvöld hafa ekki verið að gera mikið út á það; enda mundi maður kannski ekki gera það sjálfur ef maður væri að berjast fyrir annari hvorri áttinni – þá heldur þú spilunum að þér. En við erum búin að kortleggja þetta, hvernig Ísland gæti mögulega passað inn í þessar breyttu aðstæður.“
„Markmið okkar í framhaldinu verður alltaf að tryggja að minnsta kosti sambærileg viðskiptakjör og við höfum nú þegar,“ segir Lilja og bendir á að Bretland gangi hreinlega út á opin og frjáls viðskipti. „Það er það sem þeirra efnahagsmódel gengur út á, og flestra annarra ríkja. Það er alveg klárt, að mínu mati, að þeir muni leggja mjög á sig til þess að ná góðum samningum við Evrópusambandið, EES-ríkin og þau ríki þar sem þeir eiga mikilla hagsmuna að gæta.“
Kjósi Bretar að halda aðild að ESB verða virkjaðir nýir skilmálar í samningi Bretlands við sambandið, í takt við það sem David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, samdi um í janúar og febrúar á þessu ári. Meðal þess er aukið vægi þjóðþinga aðildarríkjanna í Evrópulöggjöfinni.
Spurð hvort þessir nýju skilmálar Camerons muni gera Evrópusambandsaðild að fýsilegri kosti fyrir Ísland segir Lilja það ekki breyta miklu fyrir Ísland. Hún segist hins vegar vera sannfærð um að ef Bretar ákveði að vera, verði tekið á lýðræðishalla í sambandinu að að aðildarríkin muni verða sterkari í Evrópusambandinu.